Niðurstaða verður ekki ráðin á vígvelli samfélagsmiðlanna
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, fór um víðan völl í árlegu áramótaávarpi sínu sem var sýnt á N4 milli jóla og nýars. Segir Eiríkur Björn rekstur bæjarins í jafnvægi. Rekstur Akureyrarkaupstaðar hefur gengið að óskum. Eins og síðustu ár þurfum við að sýna ábyrgð og aðhald en ég hef þá trú að nú loks sé landið að rísa, að á næstu misserum verði hægt að blása til nýrrar sóknar, skapa ný tækifæri og búa til eitthvað nýtt, bæjarbúum öllum til heilla."
"Tækifærin eru alls staðar þau eru eins og hugmyndirnar sem svífa í lausu lofti okkur fyrir hugskotssjónum við þurfum bara að grípa þau og gera að veruleika," segir Eiríkur Björn.
Hann kom einnig inn á flutninga Fiskistofu til Akureyrar frá Hafnarfiði, sem vakið hafa hörð viðbrögð. Á árinu hefur, svo eitthvað sé nefnt, mikið verið rætt um flutning Fiskistofu til Akureyrar og auðvitað fagna ég þeirri ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að efla opinbera þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Opinber störf hafa smám saman færst á suðvesturhorn landsins en þótt Reykjavík sé höfuðborgin okkar allra þá er það ekki sjálfgefið að landsmenn sæki alla þjónustu á það svæði eða að þar sé miðstöð allrar opinberrar þjónustu. Það hvort Fiskistofa sé í Hafnarfirði, Byggðastofnun á Sauðárkróki, Alþingi í Reykjavík eða Námsgagnastofnun í Kópavogi, er að sjálfsögðu ákvörðun ríkisvaldsins það hvort lagt sé fé til uppbyggingar opinberrar þjónustu á Akureyri eða Egilsstöðum, er einnig undir ríkisvaldinu komið.
Mun ekki munnhöggvast við Hafnfirðinga
Ég sem bæjarstjóri á Akureyri, mun ekki munnhöggvast við Hafnfirðinga í fjölmiðlum eða íbúa annarra sveitarfélaga. Ég er talsmaður þess að við finnum saman bestu lausnina við að efla opinbera þjónustu sem víðast um land, en við verðum þá að marka okkur stefnu um slíkt og veðja á það sem er skynsamlegast og þjóðinni allri til heilla. Niðurstaða þeirra mála sem varða okkur mestu þarfnast yfirlegu og verður ekki ráðin á vígvelli samfélagsmiðlanna. Í þessu samhengi er rétt að vekja athygli á að samstarf sveitarfélaga innbyrðis er mikilvægt sem og samstarf ríkisvalds og sveitarfélaga. Lykilatriði er að ríkisvaldið sýni sveitarfélögum þá virðingu sem þau eiga skilið sem annað af tveimur stjórnsýslustigum í landinu og hafi þau ætið með í ráðum um grundvallar stefnu í þróun opinberrar stjórnsýslu. Þar hefur því miður oft verið pottur brotinn. Hér við Eyjafjörð þar sem Þórunn hyrna og Helgi magri námu land eru blómlegar sveitir, skínandi hafnir á mörgum stöðum, fegurð og kyrrð. Við Akureyringar fögnum því sem að okkur er rétt og erum meðvituð um að í skjóli góðra aðstæðana hefur samfélagið náð að vaxa og dafna. Við vitum einnig að mannauðurinn sjálfur er hið sanna ríkidæmi hvers samfélags og hér við fjörðinn er það fólkinu sjálfu fyrir að þakka að Akureyri er nú sú þjónustumiðstöð landsbyggðarinnar sem hún hefur þróast út í að vera.
Megum ekki sofna á verðinum
Bæjarstjórinn kom einnig inn á samskiptin við ríkisvaldið. Við getum verið stolt af bænum okkar og þeirri þjónustu sem þar er veitt en megum þó aldrei sofna á verðinum. Ríkið rekur hér Sjúkrahúsið, framhaldsskólana og Háskólann auk fleiri mikilvægra opinberra stofnana. Akureyrarbær rak í mörg ár heilsugæsluna og rekur enn öldrunarþjónustu og sjúkraflutninga fyrir ríkið. Umsvif ríkisins eru því all nokkur í sveitarfélaginu. Í samskiptum við ríkisvaldið þurfum við að standa fast í fæturna og halda utan um það sem okkur ber svo Akureyrarkaupstaður beri ekki skarðan hlut frá borði. Þessi glíma hefur gengið upp og ofan, en ég mun, ásamt núverandi bæjarstjórn, gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja að þjónustan verði áfram fyrsta flokks og að eðlilegt fjármagn sé tryggt til þessarar sjálfsögðu þjónustu.