30. nóvember, 2007 - 19:49
Fréttir
Akureyrarbær hefur ákveðið að lækka niðurgreiðslur til foreldra vegna vistunar barna hjá dagforeldrum, þó verður lækkunin helmingi minni en gert var ráð fyrir í upphafi. Guðbjörg Björnsdóttir, móðir og dagmamma, sagði niðurstöðuna nú vera ásættanlega en hún fór fyrir þeirri baráttu að fá því hnekkt að daggjöld hækkuðu eins mikið og til stóð. „Við vorum búin að berjast fyrir því að að þetta yrði ekki hækkað en þetta var niðurstaðan og ég sætti mig við hana," sagði Guðbjörg. "Það má segja að þetta sé að vissu leyti sigur, við náðum því þó allavega í gegn að þetta hækkaði helmingi minna og það skiptir miklu máli. Við erum ánægð með að það sé komið til móts við okkur og þetta var skref í rétta átt. Auðvitað hefðum við viljað fá meira en Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri gerði mér það ljóst að þetta yrði aldrei öðruvísi, það yrði alltaf að hækka þetta eitthvað. Okkur sem stóðum í þessari baráttu fyrir hönd dagforeldra finnst þetta því ásættanlegt," sagði Guðbjörg ennfremur. Breytingin tekur gildi um næstu áramót og munu akureyrskir foreldrar þá þurfa að greiða rúmlega 7.000 krónum hærri gjöld á mánuði fyrir gæslu barna hjá dagforeldrum miðað við átta klukkustundir á dag. Þá hækka gjöld einstæðra foreldra um rúmlega 5.500 krónur. Fyrr í mánuðinum afhentu fulltrúar foreldra bæjarstjóra undirskriftir um eitt þúsund Akureyringa þar sem því var mótmælt að dagvistargjöld hækkuðu um 12 þúsund krónur eins og rætt var um.