Miklar tafir á nýbyggingu VMA

Framkvæmdir við nýbyggingu Verkmenntaskólans á Akureyri hafa sífellt tafist og hefur afhendingu verið frestað hvað eftir annað. „Þetta kemur sér mjög illa fyrir skólann og hefur í för með sér mikið óhagræði," segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA. Hann segir að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir að byggingin yrði afhent um mánðamótin febrúar-mars sl.

„Um áramót var ljóst að það myndi ekki ganga upp. Síðan hefur afhendingu verið frestað æ ofan í æ. Í vor óraði engan fyrir því að húsnæðið yrði ekki tilbúið til notkunar þegar við kæmum úr sumarleyfi í byrjun ágúst. Í ljós kom að verktakinn átti þá mörg verk eftir óunnin auk þess sem svokallaðir felliveggir, sem loka eiga af salnum og gera okkur jafnframt kleift að skipta honum í þrjú kennslurými, voru ekki komnir og eru ekki komnir enn. Við megum teljast lánsöm ef felliveggirnir verða komnir fyrir upphaf vorannarinnar en þeir eru framleiddir í Þýskalandi. Þeir voru teknir út úr heildarútboðinu á sínum tíma og því er ekki við verktakann að sakast heldur umboðsaðilann og framleiðandann í Þýskalandi. Hluti veggjanna kom reyndar um miðjan ágúst en þá kom í ljós að málin sem tekin höfðu verið voru röng og þeir voru því of háir. Því þurfti að senda þá aftur utan. Þetta hefur verið með ólíkindum og auðvitað hefur þetta haft mjög mikið óhagræði í för með sér fyrir skólastarfið því að við reiknuðum með þessum kennslurýmum og höfðum skipulagt hluta kennslunnar samkvæmt því," sagði Hjalti Jón.

Einnig er verið að ganga frá vesturlóð skólans, en ekki var unnt að byrja á því verki fyrr en framkvæmdum innanhúss var að mestu lokið. Upphaflega var ætlunin að hefja lóðarframkvæmdir í vor og hafa þessar tafir einnig haft verulegt óhægræði í för með sér bæði fyrir nemendur og starfsfólk að sögn Hjalta Jóns.

Nýjast