Miklar skemmdir vegna heitavatnsleka í húsi á Akureyri

Miklar skemmdir urðu í húsinu að Brekkugötu 6 á Akureyri eftir að heitt og kalt vatn hafði lekið um húsið, jafnvel svo dögum skiptir en það hefur verið mannlaust að undanförnu. Slökkvilið og lögregla komu að húsinu í dag og þar var gríðarlegur hiti og allt innanhúss gjörónýtt. Húsið, sem ber nafnið Sólgarðar, er mjög reisulegt, steinsteypt, tvær hæðir og kjallari en með timburgólfum. Blöndunartæki yfir baðkari á efstu hæð gáfu sig með fyrrgreindum afleiðingum. Samkvæmt upplýsingum Vikudags hefur verið rekið gistiheimili í hluta hússins að sumarlagi. Sem fyrr sagði hefur enginn verið í húsinu að undanförnu og því erfitt að segja nákvæmlega til um hversu lengi vatn hefur flætt þar um.

Nýjast