17. september, 2007 - 17:08
Fréttir
Mjög umfangsmiklar framkvæmdir hafa átt sér stað á golfvellinum að Jaðri að undanförnu og munu þær standa yfir fram til ársins 2012. Nú þegar hafa 7 flatir vallarins verið ,,teknar upp" og bættar mjög og nú er hafin vinna við 5 flatir sem fá sömu meðferð. Næsta haust verða svo síðustu 6 flatirnar teknar fyrir. Halldór Rafnsson formaður Golfklúbbs Akureyrar segir að nú sé unnið fyrir 30 milljónir króna sem klúbburinn fái á næsta ári samkvæmt samningi við Akureyrarbæ og er verið að taka flatirnar á 3., 12., 13., 15. 16. og 17. brautum fyrir, en framkvæmdum er lokið við flatir númer 5, 6, 7, 11, 14, 16 og 18. Nýju flatirnar eru mun stærri og nútímalegri en þær gömlu og þá segir Halldór að til standi að leggja vatnslagnir að öllum flötum vallarins sem myndi gjörbreyta allri vinnu við umhirðu þeirra og gera þær betri. Framkvæmdaplanið sem unnið er eftir að Jaðri nær til ársins 2012. Annars vegar er upptekt á flötum og miklar framkvæmdir við brautir vallarins og hins vegar endanlegur frágangur við æfingasvæði og gerð lítils 9 holu æfingavallar. Horfið hefur verið frá þeim hugmyndum að færa æfingasvæðið og breyta 2. og 3. braut og verður æfingasvæðið á núverandi stað og slegið í vestur. Þriðja holan breytist þó nokkuð en það er vegna þess að færa þarf flötina til vegna lagningar Miðhúsabrautar.
Félagar í Golfklúbbi Akureyrar eru nú um 600 talsins og hefur farið fjölgandi. Halldór Rafnsson formaður segir að ef vel eigi að vera þurfi klúbburinn að hafa um eitt þúsund félagsmenn en þá sé líka kominn sá fjöldi sem völlurinn anni. Á vellinum í sumar voru spilaðir um 30 þúsund golfhringir og mikið um aðkomufólk bæði í mót og í almennri ferðamannaumferð. Golfklúbbur Akureyrar hafði fengið úthlutað Landsmóti árið 2008 en fékk það fært aftur til ársins 2010 þegar völlurinn á að vera kominn í hóp með þeim allra bestu og flottustu á landinu að nýju að loknum miklum framkvæmdum.