03. nóvember, 2007 - 11:04
Fréttir
Jóhannes Jónsson kaupmaður kenndur við Bónus kveðst fylgjandi því að áfengi verði selt í matvöruverslunum líkt og tíðkast í sumum nágrannalöndum okkar. Hann leggur þó áherslu á að sinna þurfi forvörnum af krafti. „Ég held að það sé ekki meiri vandi tengdur áfengisneyslu í þeim nágrannalöndum okkar sem leyfa verslun með léttvín og bjór í matvöruverslunum heldur en hér á landi," segir Jóhannes. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri kveðst sátt við að sama fyrirkomulag og verið hefur á áfengissölu verði áfram við lýði, þ.e. að það verði eingöngu selt í ÁTVR. Jóhanes bendir á að almenningur hafi ágætis aðgengi að áfengi nú þegar og vísar í afgreiðslutíma Vínbúða ríkisins. Þá nefnir hann að nú þegar geti íbúar á Suðurlandi, frá Þorlákshöfn og að Höfn í Hornafirði, nálgast áfengi á bensínstöðum N1, „og er eitthvað öðruvísi að kaupa áfengi á bensínstöð en í matvöruverslun," spyr hann. Jóhannes bendir á að nýverið hafi Vínbúðirnar, ríkið, sent frá sér bækling þar sem neytendum er leiðbeint um val á vínum og hvaða vín henti með ýmsum tegundum matvæla. „Þegar ríkið stendur að slíku nefnist það kynning," segir hann. „Það er svo ofboðslegur tvískinningur í gangi varðandi allt sem tengist áfengi að það fer út fyrir öll velsæmismörk." Ef frumvarp um heimild matvöruverslana til sölu á áfengi nær fram að ganga gerir Jóhannes ráð fyrir að áfengi yrði selt í Bónus, en þar hafa aldrei verið seldir vindlingar. „Mér finnst líklegt að við myndum selja léttvín og bjór, hafa vöruvalið hnitmiðað, bjóða upp á fáar tegundir en vel valdar," segir hann og vill ekki líkja saman vindlingum og léttvíni."
„Ég viðurkenni að ég er ekki hrifin af þessari hugmynd, að selja léttvín og bjór í matvöruverslunun," segir Sigrún Björk í tilefni af frumvarpi sem fram hefur verið lagt um slíkt fyrirkomulag á sölu áfengis. „Kannanir frá hinum Norðurlöndunum benda til þess að áfengisvandi vaxi fremur en hitt með betra aðgengi." Hún er því ekki fylgjandi þeim hugmyndum kollega sinna í Sjálfstæðisflokknum um breytingu á sölu áfengis. Sigrún Björk telur að afgreiðslutími Vínbúðanna sé mjög rúmur og það fólk sem kaupir vöruna eigi auðveldlega að geta nálgast hana á afgreiðslutíma hennar.