Mikill áhugi fyrir störfum í aflþynnuverksmiðju Becromal

Fyrirtækið Becromal sem nú reisir aflþynnuverksmiðju í Krossanesi er byrjað að taka við starfsumsóknum. „Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa," segir Magnús Ásgeirsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Umsóknum er hægt að skila inn á vef fyrirtækisins á sérstökum eyðublöðum en hann er hægt að finna á vef Atvinnuþróunarfélagsins, afe.is. Magnús segir að enn sé ekki byrjað að auglýsa störfin opinberlega, en það verði væntanlega gert síðar.  Engu að síður er áhuginn mikill og margir hafa spurst fyrir að undanförnu, flestir heimamenn. „Menn hringja mikið og spyrjast fyrir, áhuginn er greinilega mikill," segir Magnús. Alls verða um 90 störf í boði fyrir fólk með mismunandi bakgrunn, menntun og reynslu. Undirbúningur við byggingu verksmiðjunnar gengur samkvæmt áætlun og er stefnt að því að vélar verði settar inn í nýtt verksmiðjuhús nú í vor, en framleiðsla hefjist í byrjun sumars.  Gert er ráð fyrir að allt að 30 starfsmenn verði ráðnir fyrsta kastið en þeim fer svo fjölgandi eftir því sem starfsemin vex.

Nýjast