Mikið um dýrðir á opnu húsi í Hamri

Það verður mikið um dýrðir í Hamri á morgun, laugardaginn 29. desember, en þá mun Íþróttafélagið Þór standa fyrir opnu húsi í félagsheimili sínu. Dagskráin hefst kl. 14:00 með því að nokkrir Þórsfélagar verða heiðraðir með gull- og silfurmerkjum félagsins, síðan mun hver dagskrárliðurinn reka annan. Stjórn Þórs hvetur alla félagsmenn sem og aðra bæjarbúa sem áhuga hafa að mæta á staðinn og eiga notalega stund og taka þátt í því að gera íþróttaárið upp hjá félaginu. Á opna húsinu verður kjöri íþróttamanns Þórs árið 2007 lýst og íþróttamenn einstakra deilda verða heiðraðir. Þá verður landsliðsfólk félags heiðrað, Afreksskóli knattspyrnudeildar Þórs kynntur, annáll ársins fluttur og ræðumaður dagsins stígur í pontu. Veitingar verða í boði Þórskvenna, sem skipa húsnefnd, eins og þeim einum er lagið og eru allir velkomnir.

Nýjast