Á morgun laugardaginn 19. apríl kl.14.00 verður opnuð sýning á verkum Jóns Laxdal Halldórssonar í Jónas Viðar Gallery.
Sýndir verða hlutir (objektar) gerðir úr bókum, pappa, gleri og þaksaumi, allir nýir af nálinni undir heitinu fáeinir fortitlar og bók
eftir Mann. Jónas Viðar Gallery er opið nú um helgina 14.00-18.00 laugardag og
13.00-18.00 sunnudag, annars föstudaga og laugardaga 13.00 til 18.00. Sýning Jóns stendur til 11 maí. Á sama tíma á morgun opnar Joris Rademaker
myndlistarsýninguna "Sjónvit" í Populus tremula. Þar sýnir hann verk sem unnin eru á 20 ára tímabili, frá 1988 til dagsins í dag,
í mismunandi tækni og víddum. Joris Rademaker var bæjarlistamaður Akureyrar árið 2006. Hann hefur sýnt reglulega, allt frá 1993, á
Akureyri og víðar. Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 20. apríl kl. 14:00-17:00. Aðeins þessi eina helgi.
"Söngvísur og baráttuljóð" er yfirskrift dagskrár sem fram fer í Deiglunni á Akureyri laugardaginn 19. apríl nk. kl. 15:00, í
tilefni af útkomu norrænu söngbókarinnar
"Ska nya röster sjunga." Fram koma Bengt Hall frá Svíþjóð ritstjóri söngbókarinnar og harmonikkuleikari og Per Warming frá Danmörku,
rithöfundur, söngvaskáld og söngvari. Þeir félagar munu taka lagið og spjalla stuttlega um tilgang og tilurð söngbókarinnar. Aðrir
flytjendur eru Gunnar Guttormsson, Þórarinn Hjartarson og Solveig Hrafnsdóttir, Kristján Hjartarson og Kristjana Arngrímsdóttir. Kynnir verður
Pétur Pétursson læknir.
Tvíburasysturnar Gunnhildur og Brynhildur Þórðardætur opna sýninguna Prjónaheimur Lúka í galleriBOXi á Akureyri laugardaginn 19. apríl kl. 16.00. Systurnar skipa listadúóið Lúka Art & Design sem var stofnað haustið 2004 en þær hafa nú verið í samstarfi við Glófa á Akureyri þar sem þær hönnnuðu mynstur fyrir íslensku ullina sem Glófi prjónaði. Hugmyndina að mynstrinu er unnin út frá lakkrískonfekti og lakkrísreimum og eru þær nú búnar að setja upp innsetningu og hanna vörur úr efninu. Systurnar stefna svo á að fara með sýninguna í haust eða næsta vor erlendis á vegum Útflutningsráðs Íslands. Sýningin stendur til sunnudagsins 4. maí og er opin alla laugardaga og sunnudaga frá kl.14-17
Hljómsveitin Morðingjarnir verður með útgáfutónleika á Græna hattinum á Akureyri í kvöld, föstudag kl. 22.00. Heimamennirnir í hljómsveitinni Akureyri! sjá um upphitun en sú sveit var stofnuð eftir tónleika hljómsveitarinnar Reykjavíkur! fyrir norðan. Áfram Ísland, plata Morðingjanna, hefur fengið mjög góða dóma og er sveitin að fylgja eftir þessum góðu viðtökum með tónleikum á Akureyri í kvöld og í Reykjavík um aðra helgi. Þá verða tveir spennandi tónleikar á Akureyri á sunnudag en því miður eru þeir á sama tíma, eða kl. 16.00. Nemendur og kennarar Tónlistarskólans á Akureyri ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands leika saman á tónleikum í íþróttahúsi Glerárskóla og er aðgangur ókeypis. Einleikari er trompetleikarinn Vilhjálmur Ingi Sigurðarson sem um þessar mundir er að ljúka mastersnámi frá Síbelíusarakademíunni í Helsinki. Stjórnandi á tónleikunum er Guðmundur Óli Gunnarsson en hann hefur starfað með SN frá stofnun sveitarinnar. Efnisskráin verður fjölbreytt, m.a. verður á efnisskránni Sverðdansinn A.Khachaturian, Carmen svíta eftir G. Bizet, þættir úr svítu eftir I.Stravinsky og trompetkonsert eftir J. Haydn. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Tónlistarskólinn á Akureyri hafa átt afar farsælt samstarf. Á tónleikunum á sunndag verða 30 hljóðfæraleikarar hljómsveitarinnar úr röðum nemenda Tónlistarskólans.
Í ár eru 50 ár liðin frá stofnun körfuknattleiksdeildar innan Íþróttafélagsins Þórs og af því tilefni mun deildin standa fyrir tónleikum í Glerárkirkju á sunnudag. Á tónleikunum munu Álftagerðisbræður ásamt Konnurunum koma fram og skemmta fólki með söng eins og þeim einum er lagið. Álftagerðisbræður eru þeir Sigfús, Gísli, Óskar og Pétur Péturssynir og undirleikari þeirra er Stefán R. Gíslason. Konnararnir eru Jóhann Már og Svavar Hákon Jóhannssynir og bræðurnir Örn Viðar og Stefán Birgissynir en undirleikari þeirra verður Helga Bryndís Magnúsdóttir. Þessir hópar munu syngja hvor í sínu lagi og svo saman í lokin.