Hann bendir á að Listasafnið á Akureyri hafi 350 fermetra húsnæði til afnota, menningarhúsið Hof verði samtals um 7000 fermerar. "Það mætti því túlka það sem svo að tónlistin sé 20 sinnum mikilvægari en myndlistin í þessu bæjarfélagi, sé stærðfræðinni beitt og mælt í rúmmetrum. Þetta er jú fyrst og fremst tónlistarhöll, í annan stað leikhús og almennt ráðstefnuhús," segir Hannes. Bendir hann á að plássleysi sé orðið mjög aðkallandi vandamál í starfsemi Listasafnsins á Akureyri. Þannig hafi safnið illa getað hýst þá sýningu sem nú stendur þar yfir, sýningu á kínverskri samtímalist. "Við komust varla með þá sýningu inn í húsið og við höfum ekki geymslur til að geyma kassa utan af henni. Mörg verkanna komust hreinlega ekki fyrir hér innandyra og við gátum heldur ekki sýnt öll verkin sökum plássleysis. Þetta er orðið mjög bagalegt," segir Hannes og bendir jafnframt á að í menningarhúsinu verði til álíka stórt "afgangsrými", og allt listasafnið er núna og sem enginn virðist vita hvað eigi að gera við," segir hann.
"Menningarhúsið á örugglega eftir að reynast mikil blessun og mun án efa færa okkur tækifæri sem ekki gefast nú, en ráðmenn verða að muna að það kostar einnig sitt að reka þessa tónleikahöll eigi hún að rísa undir nafni. Það verður ekki síður að hlúa að myndlistinni sem stendur með sögulegum blóma á Akureyri og vekur athygli og aðdáun jafnt innanlands og utan. Og þá er ég ekki bara að tala um Listasafnið."