Lið Akureyrar í handbolta kvenna mun ekki leika áfram undir Akureyri Handboltafélag á næstu leiktíð. Liðið mun vera undir stjórn KA og mun mjög líklega vera undir nafninu KA/Þór. Ný stjórn verður stofnuð utan um liðið og mun hún taka ákvarðanir um framhaldið.
Erlingur Kristjánsson fyrrum handboltastjarna úr KA og meðlimur í stjórn félagsins segir þrjá möguleika vera í stöðunni. “Fyrsti möguleikinn er að vísu möguleiki sem ég tel ekki koma til greina og mun ekki gerast meðan ég ræð einhverju og það er að leggja niður meistaraflokk kvenna, svo er einn möguleiki að leika í annarri deild og þriðji möguleikinn að halda áfram að leika í efstu deild, þetta eru möguleikar sem þarf bara að skoða,” segir Erlingur.