Meirihlutinn segi af sér

Birgir Torfason veitingamaður á Akureyri afhenti nú í morgun Sigrúnu Björk Jakobsdóttur bæjarstjóra undirskriftalista með nöfnum um 600 manna, þar sem skorað er á meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar að sjá sóma sinn í því að segja af sér nú þegar, vegna ákvörðunar hans í sambandi við nýliðna verslunarmannahelgi. Einnig er lagt til að varsla tjaldsvæðanna verði tekin úr höndum skátanna og boðin út með skilyrðum.

Sigrún Björk sagði að fulltrúar meirihlutans sætu í umboði sinna flokka. "Ef við segjum af okkur, hvað tekur þá við." Hún sagði að það hafi legið fyrir að tekið yrði á þessum málum, einhvers staðar verði að draga mörkin. "Umræðan í kjölfar hátíðarinnar hefur skilað okkur fram á veginn," sagði Sigrún Björk.

Í haus á undirskriftalistanum segir m.a. "Þessi áskorun, sem á fullan rétt á sér, er sett fram vegna stórfurðulegrar ákvörðunar meirihlutans í sambandi við nýliðna verslunarmannahelgi þar sem verulegar skorður voru settar og allt að því bann, við því að fólk á aldrinum 18-23 ára gæti heimsótt Akureyri vegna hátíðarinnar EIN MEÐ ÖLLU. Enda gert grín að þessari ákvörðun út um allt land. Þetta bann varð til þess, að talið er, að tugir milljóna töpuðust í innkomu hjá veitingahúsum, verslunum og öðrum fyrirtækjum á Akureyri." Birgir Torfason, sem stóð fyrir þessari undirskriftasöfnun í eigin nafni, sagði að hagsmunaaðilar í bænum hefðu sett 12 milljónir króna í hátíðina, sem væri sú upphæð sem framkvæmd hennar kostaði. Um helmingur þeirra sem skrifuðu undir áskorunina, gerðu það á netinu.

Nýjast