„Mannlíf í skjölum“

Norræni skjaladagurinn var haldinn sl. laugardag, 10. nóvember. Árlega vekja skjalasöfn á Norðurlöndum með þessum hætti athygli á starfsemi sinni og þema skjaladagsins í ár fjallar um einstaklinga í skjalasöfnum; mannlíf í skjölum. Markmiðið er þannig að vekja áhuga á rannsóknum á persónusögu, beina athygli að heimildum sem koma að gagni við slíkar rannsóknir og þeim skjalasöfnum sem varðveita þau gögn. Þjóðskjalasafn Íslands ásamt nokkrum héraðsskjalasöfnum hafa opnað sérstaka vefsíðu af þessu tilefni; www.skjaladagur.is . Þar eru kynntar margar heimildir sem varpa ljósi á sögu einstaklinga undir tenglinum Persónuheimildir. Þar má m.a. einnig sjá lista yfir skjöl sem Héraðsskjalasafnið á Akureyri geymir frá einstaklingum, félögum, verslunum og fyrirtækjum undir tenglinum Einkaskjalasöfn.

Héraðsskjalasafnið á Akureyri tekur þátt í skjaladagsvefnum og auk þess verður þessi vika, þ.e. 12. - 16. nóvember, sérstaklega helguð þessu viðfangsefni. Fyrir þá sem ekki vita þá er safnið til húsa á 3. hæð í Brekkugötu 17, sama húsi og Amtsbókasafnið. Þar og á stigapöllum hússins munu liggja frammi sýnishorn af persónuheimildum og einkaskjalasöfnum, svo sem íbúaskrár, kirkjubækur, uppskrifta- og uppboðsbækur, bekkjarskrár, fasteignamatsskrár, ómagaskýrslur og margt fleira. Skjalaverðir taka vel á móti þeim sem vilja kynna sér „Mannlíf í skjölum" og munu svara spurningum sem kunna að vakna um þetta efni.

Nýjast