14. apríl, 2008 - 11:04
Fréttir
Félag umhverfisfræðinga á Íslandi heldur málþing um umferðarmengun og loftgæði sem ber yfirskriftina "Minni mengun - betri heilsa", í
dag, mánudaginn 14. apríl kl. 16:30-19:00 í húsnæði Akureyrarakademíunnar við Þórunnarstræti.
Styrkur loftmengandi efna í þéttbýli, t.d. svifryks, fer stundum yfir heilsuverndarmörk, en tengsl eru á milli loftgæða og heilsufars fólks.
Sem dæmi má nefna að 40 daga á síðasta ári fór svifryk yfir heilsuverndarmörk á Akureyri. Á málþinginu verða
þessi tengsl loftgæða og heilsu útskýrð og fjallað um vöktun loftgæða, regluverk og mótvægisaðgerðir. Áhersla
verður lögð á Akureyri, uppsprettur loftmengunar á svæðinu og mögulegar aðgerðir gegn þeim. Þá verður sérstaklega
rætt um hinn hagræna og umhverfislega ávinning af umhverfisvænni bifreiðum nú þegar eldsneytisverð hefur náð áður
óþekktum hæðum.
Dagskrá málþingsins:
Setning
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Félags umhverfisfræðinga á Íslandi
Svifryk og áhrif þess á heilsu
Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur á Umhverfisstofnun
Loftgæðamál í Reykjavík og framtíðarsýn
Anna Rósa Böðvarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi á Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar
Uppsprettur loftmengunar á Akureyri og mögulegar aðgerðir gegn þeim
Alfred Schiöth, heilbrigðisfulltrúi á Akureyri
Allir græða! Umhverfisvænni bílar - fjárhagslegur sparnaður og minni mengun
Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs á Akureyri
Umræður
Fundarstjórar:
Sóley Jónasdóttir, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni Norðaustursvæði og
Kristín Sigfúsdóttir, menntaskólakennari í Menntaskólanum á Akureyri.
Allir velkomnir