„Jú, það er klárt að þetta mál er allt í uppnámi núna,” sagði Sigfús Ólafur Helgason, formaður Íþróttafélagsins Þórs, en samkomulag stjórnar félagsins og bæjaryfirvalda um uppbyggingu á Þórssvæðinu var fellt á aðalfundi Þórs í fyrrakvöld.
Samkomulagið sem var undirritað fyrir skömmu gekk út á margþætta uppbyggingu á svæðinu og ákveðnar bætur til Þórs fyrir skerðingu á athafnasvæði félagsins. Afgerandi meirihluti aðalfundarmanna felldi samkomulagið, en 29 fulltrúar voru á móti og 20 voru með því. Sigfús Ólafur Helgason formaður Þórs segist ekki gera sér grein fyrir hvert framhaldið muni verða. “En ég mun fara í fyrramálið á fund formanns íþróttaráðs og gera honum grein fyrir þessari niðurstöðu,” segir Sigfús.
Svo virðist sem niðurstaða fundarins sé þó ekki vantraust á stjórnina eða samninganefnd félagsins, því bæði Sigfús og stjórnin fengu traustsyfirlýsingu og óskorað umboð til að halda málinu áfram. Formaðurinn segir hins vegar óljóst hvað það sé nákvæmlega sem menn vilji. Hann greinir þrjár megin fylkingar í hópi þeirra sem voru á móti samningnum. Í fyrsta lagi þá sem ekki vilja leggja Akureyrarvöll niður og eru af þeim ástæðum á móti samkomulaginu. Í öðru lagi séu það þeir sem eru á móti vegna þess að þeir vilja ekki skerða Þórssvæðið og láta það undir aðra íþróttastarfsemi og í þriðja lagi séu það þeir sem eru ekki nægjanlega sáttir við þær fébætur sem félagið fær fyrir skerðingar á svæðinu. „Þessi sjónarmið verðum við einhvern veginn að reyna að bræða saman og finna einhverja niðurstöðu. Aðalfundur er æðsta vald í málefnum félagins og við verðum að sætta okkur við niðurstöðu fundarins,” segir Sigfús.