17. desember, 2007 - 11:16
Fréttir
Lögreglumaður á Akureyri var fluttur á sjúkrahús um helgina og lagður þar inn til aðhlynningar í kjölfar árásar er hann varð fyrir frá aðila sem lögreglan var að hafa afskipti af. Lögreglan var að færa handtekinn mann í lögreglubifreið fyrir utan skemmtistað í miðbænum þegar sá handtekni náði að veitast að lögreglumanninum og veita honum höfuðhögg þannig að á sá. Árásaraðilinn var fluttur á lögreglustöðina og vistaður þar. Þá var stúlku um tvítugt veitt hnefahögg í andlit inni á skemmtistað og við það brotnaði framtönn. Um eitt þúsund og átta hundruð ökumenn voru stöðvaðir um helgina víðs vegar á Norðurlandi í samstarfsverkefni lögregluliðanna á Norðurlandi gegn ölvunar- og fíkniefnaakstri. Af þeim eru fjórir grunaðir um að hafa verið undir áhrifum áfengis og þrír undir áhrifum fíkniefna. Alls hafa því sjö ökumenn verið teknir grunaðir um ölvun við akstur og fjórir fyrir ætlaðan fíkniefnaakstur í þessu samstarfsverkefni sem hófst fyrir rúmum háflum mánuði. Lögreglumenn munu hvarvetna fylgjast sérstaklega með þessum þætti áfram enda virðist full þörf á því. Lögreglan vill árétta við fólk að gæta að sér með það að fara eigi af stað of snemma á morgnana ef áfengi hefur verið haft um hönd kvöldið áður, segir á vef lögreglunnar á Akureyri.