20. maí, 2008 - 16:28
Fréttir
Lögreglan á Akureyri lokaði nýja vegarkaflanum á Miðhúsabraut upp úr hádegi í dag að kröfu umferðareftirlitsmanns
Vegagerðarinnar.
Fyrirtækið GV gröfur er að vinna við frágang á þessum kafla og að sögn Guðmundar Gunnarssonar framkvæmdastjóra er
ástæða lokunarinnar sú að eftirlitsmaður Vegagerðirnar gat ekki sætt sig við umferð um götuna þar sem GV gröfur notuðu
svokallaða búkollur (stóra efnisflutningabíla) við verkið. "Það stendur hvergi í lögum að loka þurfi vinnusvæði þar
sem búkollur eru í notkun og þessi ákvörðun er ekki frá okkur komin. Vegfarendur geta þakkað Sævari Inga Jónssyni
umferðareftirlitsmanni Vegagerðarinnar fyrir það. Í lögunum segir m.a. að búkollur séu ætlaðar til notkunar utan vega og/eða á
vinnusvæðum en það stendur ekkert um það í umferðarlögunum að loka þurfi vinnusvæðunum, enda leyfir Vegagerðin sjálf
notkun námubifreiða á vinnusvæðum, þar sem umferð er. Þrátt fyrir það ákvað lögreglan hins vegar að verða við
ósk umferðareftirlitsmannsins og loka götunni," sagði Guðmundur og bætti við að Miðhúsabraut heyrði undir Akureyrarbæ en ekki
Vegagerðina og því væri þessi ákvörðun um lokun enn furðulegri.