Lofthreinsiver á Bakka gæti skapað 300-500 stöðugildi

Carbon Iceland hefur áhuga á að reisa lofthreinsiver á Húsavík sem gæti skapað 300-500 störf.
Carbon Iceland hefur áhuga á að reisa lofthreinsiver á Húsavík sem gæti skapað 300-500 störf.

Á síðustu vikum hefur byggðarráð Norðurþings verið upplýst um áhuga félagsins Carbon Iceland ehf. til uppbyggingar svokallaðs lofthreinsivers innan iðnaðarsvæðisins á Bakka. Er verinu ætlað að hreinsa koltvísýring beint úr andrúmsloftinu, til áframframleiðslu. Norðurþing hefur til umráða 90-100 hektara lands innan skipulags iðnaðarsvæðis á Bakka, ætlað til frekari uppbyggingar vistvæns iðnaðar.

 

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings segir málið vera í fyrstu athugunum. „Við höfum verið í samskiptum við fyrirtækið í um tvo mánuði þar sem hugmyndin hefur verið kynnt okkur í grófum dráttum. Okkur sýnist þetta geta orðið ákaflega áhugavert verkefni og fellur vel að því sem við höfum verið að vinna að með Landsvirkjun; að horfa til framtíðar á Bakka með það í huga að þar geti byggst upp það sem við köllum vistvænn iðngarður. Okkur sýnist að þetta verkefni geti fallið innan þess ramma, verði af því,“ segir Kristján Þór í samtali við Vikublaðið. Byggðarráð Norðurþings fól á fundi sínum í gær, Kristjáni Þór að skrifa undir viljayfirlýsingu um að vinna málið áfram með fyrirtækinu.

„Þessi viljayfirlýsing sem við gáfum út í gær er í sjálfu sér staðfesting á því að við ætlum að halda áfram að skoða fýsileka verkefnisins og á endanum úthluta þeim lóð,“ segir hann.

Kristján Þór segir það ánægjulegt að fyrirtæki í nýsköpun af þessu tagi sjái möguileika á því að hefja uppbyggingu á Bakka við Húsavík. „Það sýnir líka hversu öfluga innviði við erum með hér á Bakka.“

Aðspurður segir Kristján Þór að næsti fasi hjá sveitarfélaginu sé að fara í frekari áreiðanleikakannanir á verkefninu og í kjölfarið fyrir fyrirtækið sjálft að kanna hvort að hægt sé að fjármagna verkefnið í framhaldinu.

Carbon Iceland hefur gert samkomulag við kanadíska hátæknifyrirtækið Carbon Engineering um að nota tækni sem fyrirtækið hefur þróað og kallast „Direct Air Capture“.

Áætlanir fyrirtækisins hljóða upp á 140 milljarða framkvæmdir ef allar þrjár vinnslueiningarnar séu taldar með: Lofthreinsiver, framleiðsla á grænu CO2 og framleiðsla á hreinu, grænu eldsneyti. N4 greindi frá því að fyrirhugað sé að byrja að reisa lofthreinsiverið árið 2023 og að það verði komið í gagnið um 2025. Um 300-500 stöðugildi, bein og óbein, verði að staðaldri við starfsemina.

Kristján Þór segir að á þessum tímapunkti sé of snemmt að vera með yfirlýsingar um stærð verkefnisins, því verði fyrirtækið sjálft að svara. „Fullt verkefni er mjög stórt miðað við þeirra áætlanir en það á mikið vatn eftir að renna til sjávar hjá okkur áður en við förum að gefa út yfirlýsingar um stærð verkefnisins.“

Kristján segir verkefnið virkilega áhugavert og jákvætt spor inn í loftslagmálin á Íslandi og hvernig sveitarfélagið geti beitt sér í þeim.  

Aðspurður segir Kristján að fulltrúar ríkisstjórnarinnar séu meðvitaðir um áform Carbon Iceland um uppbyggingu fyrir norðan en að engin bein samskipti hafi átt sér stað við sveitarfélagið. „Enda erum við s.s. bara á fyrstu metrunum en erum áhugasöm um að elta þetta lengra og skoða þennan þráð áfram þannig að við fáum raunverulega úr því  skorið hvort Bakki henti fyrir þessa uppbyggingu,“ útskýrir hann en vill ekki setja því nein tímamörk hvenær megi vænta svara úr fýsileikakönnunum.

„Það verður tíminn að leiða í ljós. Það er hreyfing á þessu máli en á þessum tímum sem við lifum núna veit maður ekkert hvað frestast og hvað ekki. Þetta er ein af þessum vörðum sem þarf að ganga í gegnum, að lýsa yfir áhuga og taka það þá áfram. Maður vonast til þess að það verði þéttur gangur í þessari vinnu sem þarf að fara betur ofan í núna, smáatriði sem snúa að svæðinu sem slíku og framleiðslunni. Teikna upp hvað þurfi til að þetta geti orðið að veruleika. Ég á von á því að við munum vinna þétt saman með þessu fyrirtæki til þess að afla þeirra upplýsinga sem þarf og veita þeim áfram. Við hlökkum til að taka þetta áfram,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.

Hér að neðan má sjá bókun Byggðarráðs Norðurþings í heild sinni:

Á síðustu vikum hefur byggðarráð Norðurþings verið upplýst um áhuga félagsins Carbon Iceland ehf. til uppbyggingar svokallaðs lofthreinsivers innan iðnaðarsvæðisins á Bakka. Er verinu ætlað að hreinsa koltvísýring beint úr andrúmsloftinu, til áframframleiðslu. Norðurþing hefur til umráða 90-100 hektara lands innan skipulags iðnaðarsvæðis á Bakka, ætlað til frekari uppbyggingar vistvæns iðnaðar.

Með yfirlýsingunni lýsir Norðurþing vilja til þess að heimila fyrirtækinu að framkvæma áreiðanleikakönnun á að staðsetja verkefnið innan iðnaðarsvæðisin á Bakka, að því gefnu að verkefnið eins og því hefur verið lýst, sé í samræmi við og falli að markmiðum sveitarfélagsins um nýtingu grænnar orku og þróun vistvæns iðngarðs á Bakka. CI hefur í huga að gera fýsileikakönnun á verkefninu m.t.t. mats á sértæki og stærð iðnaðarsvæðisins sem til umráða yrði, innviðum eins og vegum og samgöngumannvirkjum, hafnaraðstöðu og þjónustu, aðstöðu til efnismeðhöndlunar, rafmagns- og vatnsnotkunar, auk umhverfisleyfa og annara leyfa sem krafist yrði vegna starfseminnar.

Fyrir ráðinu liggur að taka afstöðu til þess að gefa út viljayfirlýsingu þar sem áhuga sveitarfélagsins til frekari athugunar á úthlutun lóða til uppbyggingarinnar er staðfest, að undangenginni frekari fýsileika- og áreiðanleikakönnunum á áformum fyrirtækisins.

Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að staðfesta fyrirliggjandi viljayfirlýsingu og jafnframt að fela sveitarstjóra undirrita hana.

 


Athugasemdir

Nýjast