31. janúar, 2008 - 19:54
Fréttir
Árið byrjar svo sem ekki með neinum látum segja fasteignasalar sem Vikudagur hafði samband við, en það er heldur enginn nýlunda. Janúar er oft
rólegur. Fleira spilar inn í nú, háir vextir, lausir samningar og bankar standa á bremsunni. Útlitið norðan heiða er hins vegar bara bjart, sala
hefur verið óvenjugóð liðin misseri og margt í gangi sem eykur bjartsýni. Arnar Birgisson hjá Fasteignasölunni Hvammi segir að eftir fremur
rólega tíð það sem af er ári sé nú allt að lifna á ný. „Janúar er oft frekar daufur, en það koma
ævinlega toppar og lægðir í fasteignasölu, það er ekki neitt nýtt." Salan á liðnu ári var mjög góð, lífleg
viðskipti allt árið og telur Arnar að svo verði áfram nú í ár.
Margt gefi tilefni til að ætla að svo verði, ný verksmiðja að rísa í Krossanesi og þá sjá menn fram á að í
nánustu framtíð opnist jarðgöng bæði Vaðlaheiðagöng og Héðinsfjarðargöng, sem gerir Akureyri enn meira miðsvæðis
í fjórðungnum. „Það hjálpar Eyjafjarðarsvæðinu mjög, þessi göng til beggja átta, þannig að ég er bara
bjartsýnn á framtíðina," segir hann. Þá nefndi hann að á liðnu ári hafi mikið verið um viðskipti fólks af
suðvesturhorni landsins á Akureyri. „Það var mikil aukning í því á síðasta ári, menn hafa trú á þessu
svæði og mér sýnist að hún verði áfram fyrir hendi." Arnar segir að mikil eftirspurn sé enn eftir iðnaðarhúsnæði og
einnig verslunarhúsnæði, m.a. í miðbæ Akureyrar.
Vilhelm Jónsson hjá Fasteignasölunni Gelli tekur í sama streng, segir árið byrja rólega, en þeir sem hafi samband séu virkilega að
leita. „Það virðist hugur í fólki, menn eru að gera eitthvað og mér líst bara vel á árið framundan, það er engin
ástæða til annars en vera bjartsýnn," segir hann. Barlómur í bankamönnum setur eitthvert strik í reikning margra, en Vilhelm er á
því að bankarnir hafi rústað markaðnum hvað lánamálin varðar. Eftir að þeir drógu í land og lækkuðu lán
sín niður í 80% af kaupverði íbúða hafi dregið úr viðskiptum, „en Íbúðalánasjóður bjargar
því sem bjargað verður. Það er lífsins ómögulegt fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu íbúð öðru
vísi en með aðstoð Íbúðarlánasjóðs, hann skiptir líka gríðarlega miklu máli fyrir fólk á
landsbyggðinni," segir Vilhelm. Hann segir liðið ár hafa verið líflegt og nefnir sem dæmi að mikið hafi verið selt af
iðnaðarhúsnæði og á því sviði hafi Gellir verið stórtækur, mikið selt af slíku húsnæði.
Iðnaðarmenn og þeir sem stundi „hobbýiðnað" af ýmsu tagi hafi í ríkum mæli fært starfsemi sína úr
bílskúrum yfir í þar til gert iðnaðarhúsnæði og eins hafi Gellismenn merkt aukningu á kaupum hins almenna borgara á
iðnaðarbilum, eða „dótakössum", þ.e. húsnæði undir t.d. vélsleða, fjórhjól og slík tæki.