14. mars, 2008 - 13:33
Fréttir
Lið Menntaskólans á Akureyri mætir liði Menntaskólans í Reykjavík í kvöld í úrslitaviðureigninni í Gettu betur,
spurningakeppni framhaldsskólanna. Viðureignin fer fram í Vetrargarðinum í Smáralind og er send út í beinni útsendingu Sjónvarpsins.
Nemendur MA fengu frí eftir hádegi í dag og stór hluti þeirra er nú á suðurleið til að styðja við bakið á sínu
liði. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem MA og MR mætast í úrslitum og þetta eru jafnframt einu skólarnir sem unnið hafa spurningakeppnina oftar
en einu sinni, MR þó mun oftar en MA. Lið MA ætlar sér ekkert annað en sigur í keppninni.
Vikudagur heimsótti lið MA í skólann í vikunni en það er skipað þeim Örnu Hjörleifsdóttur frá Grænavatni í
Mývatnssveit, Konráði Guðjónssyni frá Vopnafirði og Svölu Lind Birnudóttir, sem er búsett í þéttbýlinu
Lónsbakka í Hörgárbyggð. Þau skipuðu jafnframt lið skólans í fyrra og þá öll sem nýliðar. Arna er í 4.
bekk á náttúrufræðibraut, Svala í 3. bekk á málabraut og Konráð í 4. bekk á félagsfræðibraut. Hann
sagðist líta á það sem kost að þau væri ekki á sömu braut. Þá geta heldur ekki mörg lið ef nokkurt státað af
því að hafa tvær stúlkur í liði sem komið er í úrslit. "Það eru forréttindi að fá að vera með
þessum eðalkonum í liði," sagði Konráð. Þær Arna og Svala voru sammála um keppnin í ár hefði verið einstaklega spennandi,
ekki síst sjónvarpsviðureignirnar, þar sem úrslit hafa ráðist á síðustu spurningum. Töldu þær að skólarnir
væru að leggja enn meiri metnað í keppnina. Það hefur ekkert vantað upp á metnaðinn hjá liði MA sem hefur æft af krafti frá
því liðið var valið vorið 2006 og árangurinn því ekki komið liðsmönnum á óvart. Hjálmar Stefán
Brynjólfsson hefur þjálfað liðið og honum til aðstoðar er Magni Þór Óskarsson. "Við stefnum alltaf á sigur og það er
virkilega ánægjulegt að vera komin í úrslit. Þá finnum við líka mun á milli ára og reynsla okkar frá því
í fyrra hefur nýst okkur í ár. Við ætlum okkur því ekkert annað en sigur á föstudag," sagði Arna. Þetta er í 5.
sinn sem MA kemst í úrslit í Gettur betur, þrisvar hefur skólinn fagnað sigri en ein viðureignin tapaðist. Liðsmenn MA eru sammála um að
það skipti miklu máli að hafa öflugt stuðningsmannalið í salnum, andrúmsloftið sé þá mun skemmtilegra. MA átti heimaleik
þegar keppnin var kominn í Sjónvarpið, í átta liða úrslitum en vegna veðurs gat ekki orðið af því og sátu flestir
stuðningsmenn liðsins í Höllinni á Akureyri og fylgdust með keppninni á sjónvarpsskjá.
Ekki fékkst það í gegn að úrslitaviðureignin yrði færð norður og því þurfa MA-ingar enn og aftur að fara suður
með tilheyrandi ferðakostnaði. Þá fékkst það heldur ekki í gegn að Sjónvarpið leggði fram hærri upphæð vegna
ferðakostnaðar MA-inga. Stofnunin borgar 200 þúsund krónur í hverri og er þá miðað við um 50 áhorfendur, að sögn
Vilhjálms Bergmanns Bragasonar formanns skólafélagsins Hugins. Á fjórða hundrað stuðningsmenn hafa hins vegar fylgt liðinu fram að þessu
og er ferðakostnaðurinn um 1,2 milljónir króna á ferð. Þá eru aðeins 650 sæti í boði í Smáralind, 325 sæti
á hvorn skóla og því er óvíst að allir þeir sem vilja fylgja liðinu í úrslitin fái þar sæti, að sögn
Vilhjálms. Hann benti á að klappliðið í salnum væri leikmynd og að það væri óeðlilegt að framhaldsskólanemar
væru að greiða niður leikmynd Sjónvarpsins. Stofnunin mætti koma mun betur til móts við landsbyggðarskólana. Vilhjálmur sagði að
mikil spenna væri meðal nemenda og starfsfólks fyrir úrslitaviðureignina og þrátt fyrir allt fari stór hópur frá skólanum
suður til að styðja sitt lið í Smáralindinni.