10. febrúar, 2008 - 13:14
Fréttir
Skipulagsstofnun hefur úrskurðað að lenging Akureyrarflugvallar þurfi ekki í umhverfismat. Þetta þýðir að hægt verður að
hefjast handa við framkvæmdir, að undangengnu útboði, áður en langt um líður. Um er að ræða framkvæmd upp á 1,3 milljarða
króna, með tækjum og tækjabúnaði sem á að endurnýja og setja upp, samhliða lengingu. Stefnt er að því að framkvæmdum
verði lokið næsta haust. Mikið hefur verið rætt og ritað um efnistöku í Eyjafjarðará í tengslum við fyrirhugaða framkvæmd,
þar sem sitt sýnist hverjum. Bjarni Kristjánsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit, skrifaði hugleiðingu um það mál á
dögunum og þar kemur m.a. fram:
"Framkvæmdir við lengingu Akureyrarflugvallar krefjast mikils fyllingarefnis. Það liggur ekki fyrir hvert það efni verður sótt en fastlega má gera
ráð fyrir að leitað verið eftir leyfi til að taka það í umdæmi Eyjafjarðarsveitar. Þá koma helst til álita
óshólmasvæðin, farvegur Eyjafjarðarár og að líkindum Munkaþveráreyrar." Bjarni segir að samkvæmt nýstaðfestu
Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005 - 2025 sé ekki gert ráð fyrir efnistöku á óshólmasvæðinu nema að undangengnum rannsóknum
og úttekt eins og ákvæði er um í skipulagsforsendum. Sama eigi við um farveg Eyjafjarðarár þótt náma fyrir landi Vagla sé
staðfest í skipulaginu. Sú náma sé þó lítil sett í samhengi við efnisþörf vegna flugvallarstækkunarinnar. Bjarni bendir
á að í skýrslu Flugstoða og tilkynningu um fyrirhugaða framkvæmd í nóvember 2007 segi að aðflutt efni til fyllinga og burðarlaga
verði samtals 220 þúsund rúmmetrar og gert sé ráð fyrir „að þessu efni verði ekið úr opnum námum í
nágrenni Akureyrar. "Hvar eru þessar námur," spyr Bjarni.
Hann bendir á að samkvæmt upplýsingum hjá umdæmisstjóra Flugstoða á Akureyri sé ekki fyrirhugað að fara á þessu
ári í framkvæmdir við flughlöð og slíka aðstöðu þannig að efnisþörfin í fyrsta áfanga verður minni en
að framan greinir eða ca. 150 þús. rúmmetrar. Það má gera ráð fyrir að þetta magn skiptist til helminga á milli sands og
burðarmeira efnis. "Er ekki ástæða til að þessi mál séu skoðuð nánar og sameiginlega af skipulagsyfirvöldum á Akureyri og
í Eyjafjarðarsveit í þeim tilgangi að greiða fyrir því að allt fínna efni til fyllingar verði tekið sem næst
framkvæmdastaðnum," spyr Bjarni ennfremur í pistli sínum.