Leitað verði leiða til fjölga opinberum störfum á Akureyri

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í vikunni var samþykkt tillaga frá Hermanni Jóni Tómassyni þar sem bæjarráði er m.a. falið að setja á fót vinnuhóp sem móta skal tillögur um leiðir til fjölgunar opinberra starfa á Akureyri. Í tillögu Hermanns Jóns kemur fram að flutningur opinberra stofnana og starfa á landsbyggðina sé margyfirlýst markmið stjórnvalda, m.a. í gildandi byggðaáætlun. Akureyri er langstærsta sveitarfélagið utan höfuðborgarsvæðisins og gegnir mikilvægu þjónustuhlutverki fyrir Norður- og Austurland.  Það liggi þess vegna beint við að horfa til Akureyrar þegar opinberum stofnunum eða störfum á þeirra vegum er fundinn staður á landsbyggðinni. Ennfremur segir í bókun Hermanns Jóns að það eigi vera sameiginlegt verkefni bæjaryfirvalda og stjórnvalda að styrkja Akureyri sem byggðakjarna með því að efla þá opinberu starfsemi sem þegar er til staðar og fjölga opinberum störfum í bæjarfélaginu. Til þess að vinna að þessu verkefni samþykkti bæjarstjórn að fela bæjarráði að setja á fót vinnuhóp sem móta skal tillögur um leiðir til fjölgunar opinberra starfa á Akureyri. Tillaga Hermanns Jóns var samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

Nýjast