11. apríl, 2008 - 12:36
Fréttir
Leiksýningin Fló á skinni hefur notið gríðarlegra vinsælda hjá Leikfélagi Akureyrar síðustu mánuði og nú hefur
verið gengið frá samningum um að Borgarleikhúsið yfirtaki Flóna og hefji sýningar 5. september nk.
Sýnt hefur verið sex sinnum í viku og troðfullt hefur verið á allar sýningar. Síðustu sýningar á Akureyri verða í lok
apríl og þá verða um 70 sýningar afstaðnar. Þá verður Fló á skinni orðin aðsóknarmesta sýning á Akureyri
frá upphafi. Ljóst er að margir munu kætast þegar sýningar hefjast á þessu vinsæla verki í Borgarleikhúsinu, segir í
fréttatilkynningu frá LA. Með sýningum á Fló á skinni hefst nýtt leikár í Borgarleikhúsinu en lofað er fjölbreyttri
og skemmtilegri dagskrá í leikhúsinu allt næsta leikár. Fló á skinni var frumsýnt 8. febrúar síðastliðinn hjá LA.
Áhorfendur og gagnrýnendur hafa keppst um að lofa sýninguna og troðfullt hefur verið á öllum sýningum verksins. Sýnt hefur verið sex
sinnum í viku og verða gestir um 15.000 þegar sýningum lýkur á Akureyri (íbúar Akureyrar eru 17.000) en þá verður sýningin
orðin sú aðsóknarmesta á Akureyri fyrr og síðar. LA hefur á undanförnum vikum fengið fjölda áskorana um að taka verkið til
sýninga í Reykjavík. Fló á skinni var áratugum saman vinsælasta sýning Leikfélags Reykjavíkur frá upphafi en verkið
sló rækilega í gegn árið 1972 og var þá sýnt í fjögur ár.