20. desember, 2007 - 12:21
Fréttir
Aðstandendur kennsluefnisins
Lífsleikni í leikskóla afhentu formanni Hetjanna, félagi aðstandenda langveikra barna á Norðurlandi, peningagjöf að upphæð 200 þúsund krónur í gær. Styrkurinn er hluti af ágóða sem fengist hefur með sölu kennsluefnisins. Tilurð verkefnisins má rekja til ársins 2000 þegar leikskólarnir Krógaból, Síðusel og Sunnuból réðust í þriggja ára þróunarverkefni sem heitir
Lífsleikni í leikskóla. Afrakstur þeirrar vinnu leit dagsins ljós haustið 2006 þegar kennsluefni sem byggt er á verkefninu var gefið út og segir Guðrún Óðinsdóttir verkefnisstjóri að ríkulegir styrkir frá Kristnihátíðarsjóði hafi gert útgáfuna mögulega. Kennsluefnið hefur síðan verið selt víða um land ásamt því sem fulltrúar verkefnisins hafa haldið námskeið í innleiðingu efnisins í leikskóla. Það voru Anna R. Árnadóttir leikskólastjóri Krógabóls, Kristín Sigurðardóttir leikskólastjóri Sunnubóls, Snjólaug Pálsdóttir leikskólastjóri Síðusels, Guðrún Óðinsdóttir aðstoðarleikskólastjóri Síðusels og verkefnastjóri Lífsleikni í leikskóla sem afhentu þeim Sveinu Pálsdóttir formanni Hetjanna og Lovísu Jónsdóttur frá Hetjunum styrkinn.