Leikmenn Bjarnarins gengu af velli

Margt gengur á í íshokkíleikjum og var leikur SA og Bjarnarins sl. laugardagskvöld þar engin undantekning. Leikurinn var harður enda ungir og kraftmiklir strákar að takast þar á í 2. flokki. SA var í vænlegri stöðu þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum og staðan 8-3 þeim í vil. Leikurinn kláraðist þó aldrei þar sem þjálfari Bjarnarins, Jukka Iso-Antilla, skipaði leikmönnum sínum að yfirgefa svellið þegar þarna var komið sögu. „Rétt áður en þeir yfirgáfu svellið, slógust tveir leikmenn og það notaði Jukka sem átyllu, yfirgaf svellið og tók leikmenn sína með sér," sagði "gamla kempan" Sigurður Sveinn Sigurðsson sem sá atvikið. Sigurður kvaðst svo í kjölfarið hafa náð tali af þjálfara Bjarnarins og hann hafi tjáð sér eftir leikinn að hann hafi tekið leikmenn sína af svellinu til að tryggja öryggi þeirra. Ekki er alveg ljóst hvaða refsingu Björninn hlýtur fyrir athæfið en ljóst þykir að hún verður þung.

Nýjast