Lausn fundin í deilu Nökkva og Akureyrarbæjar

Viðunandi lausn er nú fundin í deilu siglingaklúbbsins Nökkva við bæjaryfirvöld á Akureyri vegna fyrirhugaðra framkvæmda klúbbsins á Leirunni. Eftir fund formanns Nökkva í gær með skipulagsstjóra og formanni bæjarráðs, Hermanni Jóni Tómassyni, er ljóst að ekki er grundvöllur fyrir framkvæmdum á þessu ári, eins og bæjarstjóri, Sigrún Björk Jakobsdóttir, hefur réttilega bent á í bréfum til formanns Nökkva og annarra. Þær upplýsingar sem klúbburinn lagði til grundvallar bentu til þess að hægt væri með góðum vilja að byrja framkvæmdir á haustdögum og stefndi félagið á að hefja framkvæmdir á 45 ára afmæli klúbbsins 11. september. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Rúnari Þór Björnssyni formanni Nökkva. Þar segir ennfremur að stjórn Nökkva mun sættast á þessa niðurstöðu á þeim forsendum að þegar verði hafist handa við að koma hugmyndum þeirra í réttan farveg hjá skipulagsyfirvöldum og framkvæmdasýslu. Einnig skal þess getið að þær fjárveitingar sem fyrirhugaðar voru til framkvæmda hjá Nökkva í ár falla niður, en klúbburinn heldur fjárveitingu á árinu 2009 og þá og ekki seinna en þá, verður hafist handa. Viðbrögð Nökkvamanna skulu skoðaðar í því ljósi að í tugi ára, já, tugir ára líða og enn eru þeir að berjast fyrir bættri aðstöðu fyrir klúbbinn og betri aðstöðu fyrir sportbátaeigendur í bænum og við sjáum hver staðan er í dag. Metnaðarfullar hugmyndir um framtíðarsvæði fyrir siglingar og sjósport eru alveg við það að verða að veruleika, frestun á þeim um nokkur ár er ekki inni í myndinni. Stjórn Nökkva er harðákveðin í að fylgja þessum nýjustu hugmyndum eftir og ætlar að koma þeim í framkvæmd og það er gleðiefni að sjá og heyra að bæjarstjóri hefur ítrekað það sl. daga, að það að fullur vilji bæjaryfirvalda að styðja uppbyggingu klúbbsins á Leirunni. Stjórn Nökkva vill jafnframt koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa sent þeim stuðningsyfirlýsingar síðustu daga og sýnt málinu áhuga. Það gefur okkur mikinn styrk að sjá að fullt af siglingafólki, foreldrum og stjórnir annara siglingaklúbba ásamt SÍL fylgist með málum og er tilbúið að láta heyra í sér þegar þess er þörf.

Nýjast