Lækkun vegna niðurgreiðslu á dagvistun mótmælt

Sigrúnu Björk Jakobsdóttur bæjarstjóra á Akureyri voru í morgun afhentir undirskriftalistar með nöfnum rúmlega 1000 bæjarbúa, þar sem fyrirhugaðri lækkun á niðurgreiðslu til foreldra vegna dagvistunar er mótmælt. Það var Berglind Bergvinsdóttir tvíburamóðir sem afhenti bæjarstjóra undirskriftalistana. Sigrún Björk sagði við þetta tækifæri að unnið væri að gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og yrði þetta mál tekið til skoðunar. Eins og fram hefur komið hefur að undanförnu verið til umræðu að lækka niðurgreiðslu til foreldra sem eru með börn hjá dagforeldrum um rúmlega 12.000 krónur á mánuði miðað við 8 klst. dvöl á dag. Þetta eru margir bæjarbúar ósáttir við og með mótmælunum er skorað á bæjaryfirvöld að stíga varlega til jarðar í þessu máli og sýna staðfestu þegar teknar eru stefnumótandi ákvarðanir. Einungis er ár síðan ákveðið var að bærinn niðurgreiddi dvöl barna hjá dagforeldrum þannig að kostnaðurinn fyrir foreldra verði sambærilegur við kostnað af dvöl á leikskólum bæjarins. Þessi ákvörðun var á sínum tíma fagnað mjög og varð hún m.a. til þess að fleiri sáu sér fært að taka þátt í atvinnulífinu. Það að lækka niðurgreiðsluna svona mikið í einu er of stór biti fyrir margar fjölskyldur og fyrirsjáanlegt er að einhverjir hafi ekki lengur efni á þessari þjónustu, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast