Kyrrseta barna heilbrigðisvá framtíðar
Í ágætri grein í Vikudegi sl. fimmtudag er fjallað um þá vá sem kyrrseta og hreyfingarleysi barna og ungmenna er. Þessi umfjöllun gladdi mitt sjúkraþjálfarahjarta, þar sem farið er inn á þá þætti sem sjúkraþjálfarar, íþróttaþjálfarar og fleiri hafa bent á með vaxandi þunga á undanförnum árum. Fyrir norska þinginu liggur nú tillaga frá norsku sjúkraþjálfara-, lækna-, lýðheilsu-, krabbameins- og íþróttafélögunum þar sem skorað er á stjórnvöld að tryggja að öll börn fái a.m.k 1 klst af hreyfingu daglega í skólum landsins, fyrir utan venjubundnar frímínútur.
Þá er átt við almenna hreyfingu og leik, ekki skipulagðar íþróttir með tilheyrandi reglum, keppni og sturtukröfum. Lögð er áhersla á ábyrgð skólayfirvalda þar sem börn verja stórum hluta dags í skólum, hreyfingin eigi við um alla í samræmi við getu og að efla þurfi áhughvöt barna gagnvart hreyfingu. Einnig er vakin athygli á því að allt umhverfi skólanna og samfélagsins alls verði þannig úr garði gert að það virki hvetjandi á hreyfingu. Gerð var fyrir nokkrum árum könnun á hreyfingu barna sem tóku þátt í tilraunaverkefni Heilsugæslunnar á Akureyri varðandi börn í yfirþyngd. Könnunin var gerð af meistaranemum í heilbrigðisvísindum við HA og kom þá það merkilega í ljós að þessi börn sóttu ekkert síður skipulagða íþróttastarfsemi en börn í kjörþyngd.
Munurinn kom hins vegar fram þegar kannað var hvað börnin hreyfðu sig utan allrar skipulagðrar hreyfingar. Þá komu fram þættir sem voru börnunum í yfirþyngd í óhag. Þau gengu og hjóluðu síður í skólann og þeirra daglega líf virtist síður innihalda hreyfingu af nokkru tagi. Góð íþróttaaðstaða og aðgengi að henni skiptir vissulega miklu máli, ég vil síst draga úr mikilvægi þess, en þessar niðurstöður segja okkur að það er ekki endilega eina úrræðið að hlaupa til og kalla eftir fleiri skipulögðum íþróttatímum, íþróttahúsum og græjum.
Það sem við þurfum líka er hreyfimenning, að það skapist það norm í þjóðfélaginu og meðal barna og foreldra þeirra að hreyfing sé sjálfsagður hluti daglegs lífs. Góðir hjólastígar, öruggar gönguleiðir, hjólabrettagarðar, allt er þetta liður í því að örva almenna, daglega hreyfingu og daglegur hreyfitími í skólum gæti verið sterkur leikur í þessu samhengi.
Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara