Kvikmyndin HEIÐIN sýnd á Akureyri um páskana

Kvikmyndin HEIÐIN kemur til Akureyrar á morgun skírdag og gefst norðanmönnum tækifæri til að berja hana augum yfir páskana. Umsagnir um myndina hafa verið afar mismunandi en svo virðist sem gagnrýnendur upplifi myndina ýmist sem sérstaka eða ófullburða. Þannig segir Jón Viðar Jónsson í DV 14 mars sl., "Einar Þór er ekki sjóaður kvikmyndahöfundur; þó að ég efist ekkert um skólun hans og reynslu, er vald hans yfir frásagnartækni kvikmyndarinnar enn sem komið er ekki mikið." Ólafur H. Torfason sagði hins vegar á Rás 2, 13 mars. sl., " ... málið er það að Einar Þór Gunnlaugsson kemur dálítið öðruvísi að viðfangsefni sínu en flestir aðrir íslenskir leikstjórar," og segir í pistli sínum leikstjórann skapa af fagmennsku andrúmsloft, tilfinningar og sögu. Gagnrýnandi Fréttablaðsins segir handritið þunnt þótt margt sé vel gert og fallegt, gagnrýnandi Morgunblaðsins fer lofsamlegum orðum um Heiðina 16. mars sl. með orðunum "sérstakur sjarmur" og segir myndina laglega útfærða hugmynd sem virkar á mörgum sviðum sögunnar, og Illugi Jökulsson skrifar athyglisverða grein í helgarblað 24 Stunda 15. mars sl. þar sem hann kallar hana "dáindis góða". Væntanlega munu bíógestir á Akureyri hafa tækifæri til að dæma sjálfir um nýjustu afurð íslenskrar kvikmyndagerðar, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast