Áður en gangan hefst mun Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, ávarpa göngugesti en síðan verður haldið af stað sem leið liggur inn innbæinn. Á leið um innbæinn munu göngugestir vitja ýmissa kvenna sem bjuggu og störfuðu í innbænum. Staldrað verður við heimili Vilhelmínu Lever, Ragnheiðar O. Björnsson, Önnu Þorbjargar, Elísabetar Geirmundsdóttur og fleiri kvenna í innbænum. Kvennasögugangan er nú gengin í fyrsta sinn á Akureyri og vonandi mun hún finna sér stað í hugum bæjarbúa og verða að árvissum viðburði. Auk þess að vera góð útivera þá hefur gangan það að markmiði að glæða húsin í innbænum lífi og vonandi munu göngugestir upplifa nýja og áhugaverða tengingu við húsin. Í lok göngu mun Valgerður Bjarnadóttir flytja ávarp.
Zontaklúbbarnir á Akureyri afhenda Aflinu styrktarfé.
Dagana 7. og 8. mars sl. stóðu Zontakonur á Íslandi fyrir sölu á gullrósarnælu undir yfirskriftinni ,,Zonta gegn kynferðisofbeldi". Afrakstur söfnunarinnar verður afhentur Stígamótum og systursamtökum þeirra á kvenréttindadaginn 19. júní. Á Akureyri munu Zontaklúbbarnir á Akureyri afhenda Aflinu styrktarfé sem nemur einni milljón króna. Að lokinni kvennasögugöngu og styrktarafhendingu verður boðið upp á kaffi í húsi Zontaklúbbs Akureyrar. Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Baráttan hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895. Í ár eru liðin 93 ár frá því konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla.
Fyrr um daginn kl. 12.15 fer fram gróðursetning í Vilhelmínulundi við Hamra sem samfélags- og mannréttindaráð Akureyrarbæjar stendur fyrir. Vilhelmínulundur er tileinkaður Vilhelmínu Lever verslunarborgarinnu á Akureyri. Dagskráin hefst við minningarskilti um Vilhelmínu við Hamra ofan Akureyrar . Flutt verður stutt ávarp, settar niður plöntur og boðið upp á kaffi og kleinur. Til nánari glöggvunar skal tekið fram að Vilhelmínulundur er við göngustíginn sem liggur meðfram tjaldsvæðinu að Hömrum.