Kvennalið Fylkis í fór í “utanlandsferð” til Akureyrar

Á sama tíma og flest úrvalsdeildarlið karla og kvenna í knattspyrnu eru að undirbúa æfingaferðir til heitari landa, eru stelpurnar í úrvalsdeildarliði Fylkis í æfinga- og keppnisferð á Akureyri. Þær æfa og leika æfingaleiki í Boganum og þess á milli nýta þær sér þá fjölbreyttu afþreyingu sem í boði er í bænum. "Það er allt til alls hér á Akureyri og ferð hingað skilar sér ekki síður í undirbúningi fyrir átökin í sumar en utanlandsferð," segir Akureyringurinn Björn Kristinn Björnsson, þjálfari kvennaliðs Fylkis. Hópurinn kom norður sl. laugardag og hyggst dvelja fram á skírdag. Strax um helgina fór liðið á skíði í Hlíðarfjalli í hreint frábæru veðri og einhverjar stúlkurnar fóru á listviðburði í Gilinu. Björn sagði að einnig stæði til að fara í leikhús, hótelið sem hópurinn dvelur á væri mjög gott og þá sé í boði mikil fjölbreytni í mat. Hópurinn fer í sund og ferðast á milli staða með gjaldfrjálsum strætó. Alls er Björn með 20 leikmenn í för og hann sagði að stelpurnar væru hinar ánægðustu með dvölina fyrir norðan. Björn er á sínu öðru ári með lið Fylkis en áður þjálfaði hann hjá Breiðabliki. Á Akureyri þjálfaði hann hjá KA og Þór til fjölda ára.

Nýjast