Krefjast birtingar á bréfi til Ólínu

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri.

Háskólinn á Akureyri óskar eftir að málalok Umboðsmanns Alþingis í umkvörtunarmáli Ólínu Þorvarðardóttur gegn skólanum verði birt á vef umboðsmanns. Umboðsmaður Alþingis hefur nú lokið meðferð sinni á umkvörtun Ólínu Þorvarðardóttur og í tilkynningu frá Eyjólfi Guðmundssyni, rektor HA, segir að niðurstaða Umboðsmanns sé skýr; engar athugasemdir séu gerðar við þau vinnubrögð og þá ákvörðun þáverandi rektors, Stefáns B. Sigurðssonar, að ráða Sigrúnu Stefánsdóttur í umrædda stöðu og lýkur Umboðsmaður málinu með ítarlegu bréfi sem stílað er á Ólínu Þorvarðardóttur. Háskólinn á Akureyri fékk sent afrit af því bréfi.

Í tilkynningu frá Eyjólfi segir ennfremur: „Haustið 2013 var ráðið í stöðu forseta hug- og félagsvísindasviðs við Háskólann á Akureyri. Í netumræðum og í hinum ýmsu fjölmiðlum komu fram þungar ávirðingar varðandi ráðningarferlið. Þá máttu æðstu stjórnendur háskólans sitja undir ásökunum um, að stjórnsýslu við skólann væri ábótavant. Einn umsækjenda, Ólína Þorvarðardóttir, sendi kvörtun til Umboðsmanns Alþingis vegna ráðningarinnar. 

Í bréfi Umboðsmanns er farið ítarlega yfir stjórnsýslu HA í þessu máli. Þar kemur fram að fyrrverandi rektor fylgdi lögum og reglum og viðhafði lögmæta stjórnsýslu við ráðningu forseta hug- og félagsvísindasviðs.
Háskólar eru ekki yfir gagnrýni hafnir og stofnunin í heild sinn getur lært mikið af niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis.  Í því ljósi telur undirritaður nauðsynlegt að samfélagið í heild sinni, og háskólasamfélagið sérstaklega, geti rýnt nánar í meðferð Umboðsmanns á kærumáli Ólínu.  Sem núverandi rektor HA mun ég því fara fram á það við Umboðsmann Alþingis að þeir hlutar bréfs hans til Ólínu Þorvarðardóttur er varða stjórnsýslu Háskólans á Akureyri, og ekki teljast njóta réttar persónuverndarlaga, verði birtir á heimasíðu Umboðsmanns Alþingis eins fljótt og verða má.

Háskólinn á Akureyri hefur nú hafið sitt 27. starfsár og hefur eflst og þroskast með hverju árinu sem líður. Einkunnarorð skólans eru jafnrétti, framsækni, traust og sjálfstæði. Við tökum grundvallargildi okkar alvarlega og leggjum mikla áherslu á að traust ríki á milli háskólans og samfélagsins. Að sitja undir ásökunum líkt og þeim sem fram komu á haustdögum 2013, og hér er rætt um, er því stofnuninni og starfsfólki hennar afar þungbært.  Það er von okkar að þeir aðilar sem létu þung orð falla um háskólann síðastliðið haust sjái að sér í framtíðinni áður en sleggjudómum er varpað um hina víðu heima samfélagsmiðla eða þeir birtir í fjölmiðlum landsins."

Að endingu segir Eyjólfur: "Hinsvegar lít ég svo á að málinu sé lokið með staðfestingu óháðs aðila á því að stjórnsýsla í ofangreindu máli hafi verið í fullu samræmi við lög, reglur og góða stjórnsýsluhætti.“

 

Nýjast