17. nóvember, 2007 - 10:59
Fréttir
Kosið verður um sameiningu þriggja sveitarfélaga í Þingeyjarsýslu í dag. Þetta eru Aðaldælahreppur, Skútustaðarhreppur og Þingeyjarsveit. Á síðasta ári voru íbúar sveitarfélaganna samtals 1366 og hafði þeim fækkað um 240 frá árinu 1997. Mest hefur fækkun orðið í yngsta aldurshópnum, eða um 42% á 10 árum. Flestir búa í Þingeyjarsveit, um 700 , íbúar Skútastaðarhrepps eru um 400 og í Aðaldælahreppi búa tæplega 300 manns. Óvíst var hvort hægt yrði kjósa í dag vegna veðurs en ákveðið var í morgun að hefja kjörfund. Samstarfsnefnd skipuð fulltrúum sveitarfélaganna hefur unnið að verkefninu um nokkurt skeið og lagt fram skýrslu um núverandi starfsemi sveitarfélaganna og valkosti við sameiningu. Auk þess var Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri falið að gera sérstaka úttekt á skólamálum í sveitarfélögunum og valkostum til breytinga. Þjónustugeta sveitarfélaga grundvallast á íbúafjölda og tekjum. Að óbreyttu eru ekki horfur á verulegri fjölgun íbúa og því er mikilvægt að skoða möguleika til endurskipulagningar sveitarfélaganna þannig að sem best verði staðið undir grunnþjónustunni, samhliða framkvæmdum. Samstarfsnefnd leggur til að stjórnsýsla sameinaðs sveitarfélags verði byggð upp á Laugum, sem eru landfræðilega miðsvæðis í sveitarfélaginu.