02. nóvember, 2007 - 10:53
Fréttir
Íbúum Aðaldælahrepps, Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar gefst tækifæri 17. nóvember nk. til að greiða atkvæði um sameiningu sveitarfélaganna þriggja. Á síðasta ári voru íbúar sveitarfélaganna samtals 1366 og hafði þeim fækkað um 240 frá árinu 1997. Mest hefur fækkun orðið í yngsta aldurshópnum, eða um 42% á 10 árum. Samstarfsnefnd skipuð fulltrúum sveitarfélaganna hefur unnið að verkefninu um nokkurt skeið og lagt fram skýrslu um núverandi starfsemi sveitarfélaganna og valkosti við sameiningu. Auk þess var Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri falið að gera sérstaka úttekt á skólamálum í sveitarfélögunum og valkostum til breytinga. Þjónustugeta sveitarfélaga grundvallast á íbúafjölda og tekjum. Að óbreyttu eru ekki horfur á verulegri fjölgun íbúa og því er mikilvægt að skoða möguleika til endurskipulagningar sveitarfélaganna þannig að sem best verði staðið undir grunnþjónustunni, samhliða framkvæmdum. Samstarfsnefnd leggur til að stjórnsýsla sameinaðs sveitarfélags verði byggð upp á Laugum, sem eru landfræðilega miðsvæðis í sveitarfélaginu.
Opnir kynningarfundir samstarfsnefndar með íbúum sveitarfélaganna verða haldnir sem hér segir:
Að Ýdölum þriðjudaginn 6. nóvember kl. 20:30
Gestur fundarins: Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu.
Í Skjólbrekku miðvikudaginn 7. nóvember kl. 20:30
Gestur fundarins: Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Á Breiðumýri fimmtudaginn 8. nóvember kl. 20:30
Gestir fundarins: Karl Frímannsson, skólastjóri Hrafnagilsskóla, en skólinn er fjölmennur skóli í sameinuðu sveitarfélagi. Fanney Ásgeirsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja, en hún hefur rannsakað sérstaklega samfélagslegt hlutverk fámenna skólans.