Kórastarf ekki einungis gefandi, það leiðir líka gott af sér

Þorvaldur Örn Davíðsson organisti og kórstjóri við Akureyrarkirkju og Laugalandsprestakall segist gr…
Þorvaldur Örn Davíðsson organisti og kórstjóri við Akureyrarkirkju og Laugalandsprestakall segist greinilega finna hvað Akureyringar hugsa með miklum hlýhug til kirkjunnar sinnar sem sé eitt helsta kennileiti bæjarins. Mynd/MÞÞ

mth@vikubladid.is

„Nú eru breyttir tímar og rétta stundin runnin upp til að blása meira lífi í sönglíf Akureyringa,“ segir Þorvaldur Örn Davíðsson organisti og kórstjóri við Akureyrarkirkju og Laugalandsprestakall. Hann hóf störf haustið 2020 og segir að heimsfaraldur af völdum kórónuveirunnar hafi sett svip sinn á kórastarfið frá því hann byrjaði. Sem og auðvitað allt félagsstarf og í raun samfélagið allt. Útlitið sé bjartara nú og til standi að bjóða upp á kröftugt kórastarf á komandi vetri. Söngprufur fyrir þá sem vilja slást í hópinn verða sunnudaginn 21. ágúst í Akureyrarkirkju. Einkum og sér í lagi eru karlar hvattir til að gefa kost á sér í kórinn.

Þorvaldur Örn er Eskfirðingur, fæddur þar og uppalinn en kom til Akureyrar í menntaskóla, var í MA og lauk stúdentsprófi þaðan. Einnig lauk hann framhaldsprófi í píanóleik við Tónlistarskóla Akureyrar. „Framan af var ég arfaslakur námsmaður, eða alveg þangað til ég fór að helga mig tónlistinni,“ segir hann. Leiðin lá suður til Reykjavíkur þar sem hann hóf háskólanám í tónsmíðu. Hann lauk MA prófi árið 2019 en lærði samhliða tónsmíðunum kirkjutónlist þar sem helstu viðfangsefnin voru orgelleikur, kórstjórn, litúrgía og ýmsar fræðigreinar.

„Reykjavík heillaði mig lítið, því miður, og það sama má segja um Árnýju kærustu mína sem er úr Árneshreppi á Ströndum. Við ákváðum því þegar kóvid skall á að breyta til og flytja til Akureyrar,“ segir Þorvaldur og segir það ekki hafa skemmt fyrir góðri upplifun af bænum að sonurinn Eyvindur sé fæddur á Akureyri. „Það hlýtur að gera mig að hálfum Akureyringi,“ segir hann.

Þorvaldur kom víða við þann tíma sem hann bjó í höfuðborginni. Stýrði m.a. Hljómeyki, Gradualekór Langholtskirkju og Graduale Nobili. Hann stjórnaði þessu kórum á fjölda tónleika sem og útsendingum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, uppfærslu Íslensku óperunnar. Á liðnu vori kom út platan Vökuró sem hann gerði ásamt dömukórnum Graduale Nobili en platan var gefin út af Universal undir formerkjum Decca Gold plötuútgáfunnar.

Tónlistariðkun örvar heilann meira en nokkuð annað

„Kórsöngur er merkilegt fyrirbæri og það er einstök tilfinning að tilheyra samhljómi. Rannsóknir hafa sýnt að tónlistariðkun örvar heilann meira en nokkuð annað sem við gerum,“ segir Þorvaldur. Hann nefnir að sumir kórsöngvarar í þeim kórum sem hann stjórnar hafi lýst kóræfingum sem slökun eða vikulegri heilun. „Það að vera í kór er í raun ókeypis tónlistarnám, kórfélagar kynnast fjölbreyttri tónlist, raddbeitingu og hugtökum í tónlist.“

Kórastarfið í Akureyrarkirku er öflugt og fjölbreytt, þar er starfandi Kór Akureyrarkirkju ásamt yngri og eldri barnakór. Þá er starfandi kirkjukór í Grundarsókn í Eyjafjarðarsveit sem nú er hluti af Akureyrarprestakalli. Kórinn syngur við helgihald í Akureyrarkirkju og er honum skipt upp í nokkra messuhópa sem deila á milli sín sunnudögum. Í viðhafnarmessum syngja stærri hópar og jafnvel allur kórinn. „Það er virkilega gefandi að hlusta á þennan stóra kór syngja af kórsvölunum eins og margir Akureyringar þekkja,“ segir Þorvaldur.  

Jólasöngvar og vortónleikar fastir liðir

Kór Akureyrarkirkju syngur einnig á tónleikum, fastir liðir eru Jólasöngvar sem legið hafa í dvala tvö undanfarin ár, en nú segir hann að allt stefni í sérlega veglega Jólasöngva þetta árið. Þá heldur kórinn vortónleika og síðasta vor voru nýjar kórútsetningar af Jónasarlögum Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Jónasar Hallgrímssonar á efnisskránni.

Kórinn söng við undirleik Vínarkvartetts ásamt barnakór kirkjunnar. Ágóði þeirra tónleika fór til byggingar nýrrar Miðgarðakirkju í Grímsey, þá söng kórinn einnig á sérstökum styrktartónleikum fyrir fórnarlömb í Úkraínu. „Þannig að kórastarfið er ekki einungis gefandi heldur leiðir það líka gott af sér,“ segir Þorvaldur.

Hlýhugur til kirkjunnar

„Mér finnst magnað,“ segir Þorvaldur „hversu mikið tákn Akureyrarkirkja er fyrir bæinn. Kirkjan er hans helsta kennileiti og ég hef fundið mjög sterkt fyrir því hvað Akureyringar hugsa með miklum hlýhug til kirkjunnar sinnar.“ Akureyrarkirkja sé einnig vel þekkt fyrir sitt mikla tónlistarstarf, í henni er næst stærsta orgel landsins og þá séu organistarnir Eyþór Ingi Jónsson og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir glæsilegir organistar og einstakir fagmenn. „Það eru sönn forréttindi að vinna með þeim og alls ekki sjálfsagt enda fáar kirkjur hér á landi með fleiri en einn organista,“ segir hann og bætir við að einnig sé frábært að starfa með sóknarprestum og öðru starfsfólki kirkjunnar. „Þetta er virkilega gefandi vinnustaður og gott andrúmsloft.“

Höfum öll skoðun á tónlist

„Það býr tónlist í okkur öllum. Tónlistin er það listform sem oftast verður á vegi okkar og við höfum öll skoðun á henni. Að sama skapi getum við öll sungið, misvel auðvitað eins og gengur. Í kórastarfi eins og okkar er klárlega kostur að kunna nótnalestur og fyrri reynsla af kórastarfi er það líka. Ég hef þó kynnst mörgum söngvurum sem hafa komist langt á tónheyrninni. Nótnalestur lærist eins og allt annað og er einn af þeim hæfileikum sem fólk býr að sem tekur þátt í kórastarfi,“ segir Þorvaldur og hvetur alla sem áhuga hafa á að hafa samband og skrá sig í prufur. „Það er bara gaman, þó ekki væri nema til að hitta okkur Eyþór Inga,“ segir hann.

 

 


Athugasemdir

Nýjast