Þegar Vikudagur ræddi við 15 ára stúlku í Brekkuskóla á Akureyri sem hafði séð myndir af tveimur bestu vinkonum sínum þarna inni á síðunni taldi hún líklegast að myndirnar hefðu verið teknar af heimasíðum eða MySpace síðum og einfaldlega settar þarna inn. Þetta hafi vissulega komið stúlkunum óþægilega á óvart ekki síst vegna þess að við myndina af þeim hafi verið ummæli eða myndatexti sem snerist um að það væri ugglaust gott a sofa hjá þeim þessum, nema hvað orðalagið var heldur klúrara. Stúlkurnar höfðu ekki hugmynd um að mynd væri af þeim inni á þessari síðu eða að síðan væri yfir höfuð til, fyrr en "einhverjir strákar úti í bæ" fóru að tala um það við þær. Sögðu þær slíkt afar óþægilegt og niðurlægjandi.
Vitað er til að myndir af krökkum héðan að norðan hafa birst á síðunni áður en henni var lokað, m.a. af stúlkum úr Brekkuskóla og úr Hrafnagilsskóla. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu krafðist þess í gær af forsvarsmanni síðunnar að henni yrði lokað, en DV hefur fjallað mikið um málið og gerir það áfram í blaðinu í dag. Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir að ekki sé búið að ákveða framhald málsins. Forsvarsmaður síðunnar segir við DV að frelsið sem notendur síðunnar höfðu, hafa verið misnotað. Sé vefslóð síðunnar slegið upp nú koma einfaldlega eftirfarandi skilaboð:
"Í ljósi fréttaumfjöllunar þar sem að nöfn síðunnar og aðila sem standa óbeint að henni eru svert á afar meiðandi hátt hefur sú ákvörðun verið tekin að hætta rekstri vefsíðunnar handahof.org. Undanfarið hafa birst tvær fréttagreinar þar sem þessu vefsvæði er lýst sem barnaklámsíðu. Það hefur aldrei verið inntak með rekstri síðunnar, einnig hafa birst athugasemdir á spjallþráðum þar sem komið hafa fram hótanir gagnvart einstaklingum. Slíkt er auðvitað ekki ásættanlegt. Slíku efni hefur verið eytt af vefnum jafnóðum og stjórnendur hafa orðið þess varir. Síða þessi var spjallborð þar sem að fólki var gert kleift að ræða um hvað sem er undir nafni eða nafnleynd, og kusu flestir notendur hennar að koma fram nafnlaust. Allir gátu sent inn spjallþræði og myndir, og þeir spjallþræðir sem ekki var lengur virk þáttaka í eyddust sjálfkrafa út þegar nýjir komu þeirra í stað. Síður af þessari gerð, í daglegu tali kallaðar "chan" síður eru mjög vinsælt fyrirbæri í dag. Fremst þar í hópi er vefsíðan 4chan sem er þegar þessi texti er skrifaður í 299. sæti á lista Alexa yfir vinsælustu vefsíður heims. Þegar búið er að eyðileggja nafn síðunnar á þennan hátt þá sjáum við okkur ekki fært að starfa með hana áfram."