14. desember, 2007 - 11:23
Fréttir
Búist er við gríðarlegri umferð í verslunum á Akureyri um helgina og búa kaupmenn og verslunarfólk sig nú sem best þeir geta til að taka á móti miklum fjölda fólks. Jólaverslun hefur það sem af er desember verið með svipuðum hætti og á liðnum árum og lét verslunarfólk sem rætt var við vel af sölunni, í henni hefði verið mikill stígandi og fram kom að viðskiptavinir væru almennt í góðu jólaskapi og lítið um pirring í fólki. „Þetta hefur farið ágætlega af stað, það var mikil og góð sala um síðastliðna helgi og greinilega margir á faraldsfæti að undirbúa komu jólanna," segir Vilborg Jóhannsdóttir sem rekur tískuverslanirnar Centró í miðbæ Akureyrar og á Glerártorgi. Marga sagði hún langt að komna, hún vissi af fólki alla leið frá Neskaupsstað og eins frá Þórshöfn, en það fólk legði á sig fjögurra til fimm tíma akstur til að versla á Akureyri. Elías Björnsson aðstoðarverslunarstjóri í Bónus á Akureyri tekur í sama streng og segir jólaverslun hafa gengið prýðilega vel. „Það hefur verið mikið að gera og við erum nú í óða önn að búa okkur undir stóra helgi. Við gerum ráð fyrir að fólk verði mikið á ferðinni þessa helgi," segir hann. Atli Þór Ragnarsson verslunarstjóri hjá Nettó segir vel hafa gengið og jafnvel betur en undanfarin á. „Það hefur verið dúndrandi sala hjá okkur, það er marktækt meiri munur nú en t.d. í fyrra," segir hann og telur að mörg og góð tilboð sem verslunin hafi boðið að undanförnu skili sér í aukinni verslun.