KA-menn tóku á móti Þrótti frá Reykjavík í Boganum um helgina í deildarbikarkeppni karla í knattspyrnu. Gestirnir úr höfuðborginni voru sterkari aðilinn í leiknum og sköpuðu sér fleiri færi en KA-vörnin hélt ásamt því að Matus Sandor átti góðan leik í markinu.
Heimamenn léku skynsamlega og beittu skyndisóknum og upp úr einni slíkri kom einmitt eina mark leiksins. Dean Martin fékk þá góða sendingu innfyrir frá Elmari Dan Sigþórssyni og lagði boltann út í teiginn þar sem að Almarr Ormarrsson kom á fullri ferð og skoraði í fjærhornið.
Eftir markið pressuðu Þróttarar áfram að marki KA og fengu ágætis færi til að jafna en án árangurs og KA-menn stóðu því uppi sem sigurvegarar í þessum fjöruga leik.