KA og Þór leika í kvöld í 1.deildinni

KA tekur í kvöld kl. 18:00 á Akureyrarvellinum á móti Fjarðabyggð í gríðarlega mikilvægum leik í 1. deild karla í knattspyrnu.

KA liðið situr nú á botni 1. deildar með 15 stig, jafn mörg og Reynismenn úr Sandgerði, en KA hefur örlítið lakara markahlutfall.

Pétur Ólafsson, þjálfari KA, segir í Vikudegi í dag að hans menn hreinlega verði að vinna leikinn og hvetur hann KA-menn til að fjölmenna á völlinn og styðja sína menn.

Óhætt er að taka undir orð Péturs, KA veitir ekki af öllum þeim stuðningi sem það getur fengið enda er liðið ekki í góðum málum í botnsæti deildarinnar ef leikurinn tapast. Sigur hins vegar gæti fleytt KA upp um 2-3 sæti.

Þórsarar spila við Þrótt

Þórsarar halda hins vegar suður yfir heiðar og mæta þar Þrótturum í Reykjavík á sama tíma kl. 18:00. Páll Viðar Gíslason aðstoðarþjálfari segir að Þórsarar séu sjálfir sínir erfiðstu andstæðingar og að hann hafi engar áhyggjur af Þrótturunum. Hann viðurkenndi þó að hann væri afar sáttur við eitt stig fyrirfram enda Þróttarar á miklu skriði í efsta sæti deildarinnar, en Þórsarar í því sjötta.

Nýjast