KA gerði jafntefli við Fjarðabyggð

KA menn voru nú rétt í þessu að gera jafntelfi 1-1 við Fjarðabyggð í 1.deild karla í knattspyrnu.

Leikur KA og Fjarðabyggðar var afar bragdaufur í fyrri hálfleik og nánast það eina tíðindaverða sem gerðist í leiknum var víti sem Jón Gunnar Eysteinsson skoraði úr á 4 mínútu fyrir Fjarðabyggð.

Síðari hálfleikur var hins vegar hin mesta skemmtun og voru það KA menn sem sáu að mestu um að veita hana. Fjarðabyggð byrjaði reyndar eilítið betur og Andri Valur Ívarsson klúðraði tveimur mjög góðum færum einn gegn markmanni á 55. mínútu. Í fyrra færinu var hann kominn einn í gegn en átti slakt skot. Seinna færið kom svo eftir fyrirgjöf en þá klikkaði móttaka Andra Vals þar sem hann stóð einn og óvaldaður á fjærstöng.

Eftir þetta tóku KA-menn hins vegar öll völd í leiknum og Fjarðabyggð fékk varla færi. Almarr Ormarrsson átti gott skot rétt yfir mark Fjarðabyggðar á 63. mínútu. Ibra Jagne átti gott skot á 68. mínútu sem var vel varið. En Alexander Linta skoraði jöfnunarmarkið með glæsilegu skoti úr teignum eftir þríhyrningsspil við Elmar Dan Sigþórsson.

Ekki löngu síðar átti Þorvaldur Makan svo gott skot naumlega framhjá úr mjög góðu færi rétt utan teigs.

KA-menn fengu svo víti þegar skammt var eftir af leiknum. Ibra Jagne var þá felldur innan teigs og vítið var réttilega dæmt. Alexander Linta lét hins vegar verja frá sér, en þess ber þó að geta að vítið var ekki illa tekið. Markvarslan var einfaldlega frábær.

Eftir vítið sóttu KA menn áfram án afláts og áttu nokkrar góðar tilraunir, sú hættulegasta kom þegar Ibra Jagne átti skalla rétt yfir markið á lokamínútunum.

Jafntefli var hins vegar niðurstaðan og mega Fjarðabyggðarmenn vera ánægðir með það.

Nýjast