05. mars, 2008 - 13:37
Fréttir
Í dag, miðvikudaginn 5. mars, undirrituðu fulltrúar Landsbankans, þeir Helgi Teitur Helgason og Birgir Björn Svavarsson, útibússtjórar á
Akureyri og hins vegar þeir Árni Jóhannsson og Gunnar Jónsson, fulltrúar Knattspyrnufélags Akureyrar, KA, undir viðauka við styktarsamning
Landsbankans og Knattspyrnufélags Akureyrar í tilefni af 80 ára afmælisári félagsins. Viðaukinn felur í sér aukinn styrk til KA
á afmælisárinu. Markmiðið er að létta undir með KA með það fyrir augum að byggja upp innri starfsemi félagsins og gera
félaginu auðveldara með að sinna því samfélagslega verkefni sem félagið hefur á herðum sínum.
Það er von aðila að KA verði kleift að halda áfram með það góða starf sem félagið hefur innt af hendi í samfélaginu
á Akureyri í þau 80 ár sem það hefur starfað. Frá stofnun KA hefur Landsbankinn verið viðskiptabanki félagsins sem og
ákafur stuðningsaðili. Í máli fulltrúa Landsbankans, Helga Teits Helgasonar og Birgis Björns Svavarssonar útibússtjóra Landsbankans
á Akureyri, kom fram að þau verðmæti sem félag eins og KA hafi skapað íbúum bæjarfélagsins undanfarin 80 ár væru
ómetanleg. Öflug og heilbrigð starfsemi íþróttafélaga væri einn af hornsteinum allra samfélaga. Það væri
því von Landsbankans að þessi viðauki og aukni styrkur kæmi KA vel og yrði til þess að efla hróður félagsins í þeirri
baráttu sem félagið stendur í á mörgum vígstöðvum. Í máli fulltrúa KA kom fram að félagið vinnur gott og
öflugt starf og stuðningur af þessu tagi er kærkominn og í raun nauðsynlegur svo starfið megi blómstra og dafna. KA kann því
Landsbankanum bestu þakkir fyrir stuðninginn í gegnum árin og er það vel metið innan félagsins, segir í fréttatilkynningu.