Handboltalið Akureyrar náði loks að landa sigri í kvöld, 35-26, þegar liðið lék á útivelli gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í DHL-deild karla. Sigur Akureyrar var mjög sannfærandi þrátt fyrir að fyrri hálfeikur hafi ekki gengið alveg sem skyldi en eftir hann var staðan 15-13 Akureyri í vil. Engan skyldi þó undra þó að Akureyri hafi ekki spilað sinn besta leik í fyrri hálfeik enda varð liðið fyrir miklu áfalli strax í byrjun þegar Jónatan Magnússon hné niður á vellinum.
Atvikið leit einkar illa út, Jónatan virtist fá verk fyrir brjóstið og lagðist í gólfið. Hann missti þó aldei meðvitund en að sjálfsögðu var farið með hann á sjúkrahús til aðhlynningar. Honum leið þó eftir atvikum vel en þarf að eyða nóttinni í Eyjum þar sem ekki þótti ráðlegt að senda hann í klukkustundar flug eftir atvik sem þetta. Þetta vissu leikmenn Akureyrar ekki á meðan á fyrri hálfleik stóð og sló atvikið þá augljóslega nokkuð útaf laginu.