Jólamarkaður í Ketilhúsinu á Akureyri

Á morgun mun Ketilhúsið taka á sig nýja og skemmtilega mynd þegar þar verður opnaður jólamarkaður með norðlensku handverki. Þarna verða á boðstólum munir úr leir, gleri, ull, beinum, silfri og steinum, svo dæmi sé tekið. Hver veit nema að jólagjafavandi margra verði einmitt leystur að einhverju marki með heimsókn á Jólamarkaðinn í Ketilhúsinu. Handverksfólkið sem mun sýna vörur sínar kemur meðal annars frá Akureyri, Fjallabyggð og úr Aðaldalnum. Við opnun Jólamarkaðarins á morgun munu nemendur úr Brekkuskóla á Akureyri syngja lög úr jólasöngleiknum Kraftaverk á Betlehemstræti sem þau hafa sett upp og er í sýningu í skólanum þessa dagana. Þegar búið er að rölta um Jólamarkaðinn verður hægt að setjast niður á efri hæð Ketilhússins þar sem börnin geta föndrað í boði Pennans Eymundsson og hægt verður að kaupa veitingar hjá Kvenfélaginu Baldursbrá. Jólamarkaðurinn er opinn kl. 16-21 á morgun föstudag. Á laugardag 8. desember kl. 13-18, sunnudag 9. desember kl. 13-18.
Markaðurinn er svo lokaður mánudag til miðvikudags en verður aftur opnaður fimmtudaginn 13. desember og er opinn fram á sunnudaginn 16. desember.

Nýjast