13. apríl, 2008 - 11:53
Fréttir
Aukning hefur verið í farþegaflugi Flugfélags Íslands milli Akureyrar og Reykjavíkur það sem af er ári og eru farnar allt að 14 ferðir
á dag á milli þessara áfangastaða.
"Það hefur verið jöfn og góð aukning hjá okkur undanfarið," segir Ari Fossdal stöðvarstjóri á Akureyrarflugvelli. Hann segir
að fyrstu tveir mánuðir ársins hafi komið vel út og auking verið í farþegafluginu, en svo hafi raunar ekki verið varðandi
marsmánuð. "Það má eflaust skýra með aðstæðum í þjóðfélaginu, um leið og fram kemur niðursveifla
í efnahagslífinu getum við lesið það í okkar farþegatölum," segir Ari. Engu að síður er útkoman í heild sú
að fyrstu þrír mánuðir ársins eru betri en sami tími á síðastliðinu ári.
Að jafnaði eru farnar 7-8 ferðir á dag milli Akureyrar og Reykjavíkur, 9-10 um helgar og bætt við eftir þörfum. "Við höfum farið allt
upp í 14 ferðir á dag milli þessara áfangastaða," segir Ari, og nefnir að aukin umferð ferðalanga um helgar sé þar helsta
skýringin.