„Jákvætt skref til að tryggja matvælaöryggi“

Sigurgeir Hreinsson.
Sigurgeir Hreinsson.

mth@vikubladid.is

„Ég er nokkuð ánægður með aðkomu ríkisins þó meira þurfi til,“ segir Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsamband Eyjafjarðar um tillögur spretthóps sem matvælaráðherra skipaði og skilaði tillögum sínum í byrjun vikunnar. Spretthópurinn leggur til að ríkið komi til móts við þær verðhækkanir sem bændur standa frammi fyrir með tæplega 2,5 milljarða króna stuðningi á árinu 2022. Gert er ráð fyrir að greinin sjálf, afurðafyrirtæki, verslunin og neytendur eigi eftir að takast á við kostnaðarauka af svipaðri stærðargráðu.

„Það er ánægjulegt fyrir framleiðendur og neytendur að ríkið komi að stuðningi við matvælaframleiðslu á jafn viðsjárverðum tímum og nú eru,“ segir Sigurgeir og bætir  við að komið sé til móts við um helming af þeirri hækkunarþörf sem til er komin í kjölfar stórfelldra kostnaðarhækkana. „Þetta er mjög jákvætt skref til að tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar. Þó svo að afurðir hafi hækkað að einhverju marki á síðustu mánuðum og stuðningur ríkis sé umtalsverður er ljóst að enn er þörf á hækkunum til að afkoma framleiðenda sé viðunandi og bændur framleiði eins og nauðsyn er á.“

Veikja rekstargrundvöll og draga úr framleiðsluvilja

Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður í landbúnaði hafi hækkað um tæpa 9 milljaðrar króna vegna hækkana á áburði, kjarnfóðri, olíu og rúlluplasti. Þessar verðhækkanir hafa veikt mjög rekstargrundvöll bænda og dregið úr framleiðsluvilja þeirra. Nefnir Sigurgeir að í fjöldatölum í skýrsluhaldi komi fram að nautum innan við 12 mánaða hafi fækkað mikið undanfarið. Miðað við meðal fjölda í maí á síðustu árum er fækkun um 7-800 gripi. Það eru í kjötþunga nálægt 190 tonnum, eða 7,5-8% af innlögðu kjöti af UN gripum. „Þessi tala er hækkandi í hverjum mánuði sem líður og forvitnilegt að sjá á næstu mánuðum hvort eitthvað breytist,“ segir hann.

Þá nefnir Sigurgeir að tillögur spretthóps virðist koma misjafnlega vel við búgreinar, þannig megi gera ráð fyrir að svínabændur séu ekki ánægðir. Í tillögum spretthópsins er auk greiðslu upp á tæplega 2,5 milljaðar króna samkvæmt öllum búvörusamningum gert ráð fyrir 450 milljónum sem ætlaðar eru til stuðnings svína-, alifugla- og eggjaframleiðslu þar sem ekki er um slíka samninga að ræða.

Afurðastöðvar fái tímabundna heimild til samstarfs

Jafnframt er lagt til að kjötafurðafyrirtækjum verði veitt tímabundin heimild til samstarfs með það að markmiði að hvetja til hagræðingar innan geirans. Heimildin yrði bundin ákveðnum skilyrðum sem lagt er til að verði unnin í samráði við Samkeppniseftirlitið. Þá er lagt til að komið verði á sérstökum vakthópi um fæðuöryggi.

 


Athugasemdir

Nýjast