Íþróttavallarsvæðið skipulagt út frá forsendum bæjarins

Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri segir að samkvæmt aðalskipulagi Akureyrarbæjar hafi íþróttavallasvæðið verið skilgreint undir blandaða starfsemi, íbúðabyggð, verslun og þjónustu, og telur bæjarstjóri líklegt að í fyllingu tímans muni þar rísa verslun af einhverju tagi í þeim húsum sem þar verða væntanlega reist. Vinnuhópur á vegum bæjarins er nú að fara yfir málið varðandi Akureyrarvöll og gerir Sigrún Björk ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki í síðasta lagi um áramót, en honum er m.a. ætlað að varpa fram hugmyndum um hvað nákvæmlega eigi að rísa á umræddum reit. Þyrping óskaði eftir að fá völlinn til umráða til að reisa þar Hagkaupsverslun og sendi bænum erindi þess efnis, en bæjarstjóri segir aldrei hafa komið til greina að afhenda einum aðila allan völlinn til umráða.

Í tengslum við þessa umræðu þá er verið að vinna deiliskipulag miðbæjarsvæðisins þar sem verður byggt á þeim bílastæðaflákum sem þar standa. Það er verið að reyna að gera miðbæinn manneskjulegri og því komi vart til greina að breyta grænu svæði eins og Akureyrarvelli í bílaastæðasvæði, þau fylgja óhjákvæmilega með verði reist stórverslun á svæðinu. „Við höfum verið að skoða ýmsa aðra möguleika og það er alveg ljóst að þetta svæði verður skipulagt út frá forsendum bæjarins," segir Sigrún Björk.

Nýjast