Íþróttahús og sundlaug í Hrísey tilbúin í vor

Framkvæmdum við nýtt fjölnota íþróttahús og endurbætur á sundlauginni í Hrísey miðar vel og er verkið á áætlun. Að sögn Guðríðar Friðriksdóttur, framkvæmdastjóra Fasteigna Akureyrarbæjar, eru verklok áætluð í júní á næsta ári. Fjölnota íþróttahúsið er rúmlega 600 fermetrar og stendur við sundlaugina og verður notað í tengslum við hana. Í fjölnotahúsinu er m.a íþróttasalur, aðstaða fyrir líkamsrækt og kennslueldhús og þar verða búningsklefar sem samnýtast með sundlaug. Á efri hæð er stórt herbergi sem unnt er að nota til fundahalda eða tómstunda. Gerðar verða miklar endurbætur á sundlauginni sem gera hana hentugri til sundkennslu. Einnig verða um 300 m² byggðir við sundlaugarhúsið þar sem verða barnalaug og heitir pottar. Búið er að steypa upp húsið og viðbyggingu við sundlaug, einangra og klæða. Allir gluggar og hurðir eru ísett og glerjun er að mestu lokið ásamt því að verið er að mála innveggi. Aðalverktaki er Völvusteinn og kostnaður verður rúmar 300 milljónir króna.
Jóhanna María Agnarsdóttir, skólastjóri grunnskólans í Hrísey, segir að þessi bygging sé alger bylting fyrir Hríseyinga. „Krakkarnir fá nú loksins almennilega íþróttaaðstöðu innandyra sem þau hafa ekki kynnst áður. Þó sundlaugin sé sú sama þá er allt í kringum hana nýtt, þannig að það verður hægt að synda nánast allan ársins hring. Heilsufarslega, félagslega og íþróttalega séð er þetta mikil bylting," segir Jóhanna María.

Nýjast