„Íþróttahótel” á Hrafnagili á teikniborðinu

Garðar Jóhannesson íþrótta- og tómstundafulltrúi í Eyjafjarðarsveit hefur kynnt hugmynd sína um stofnun „íþróttahótels" við Hrafnagilsskóla. Þar eru mikil og góð mannvirki sem ekki eru nú nýtt sem skyldi. „Þetta er nú allt saman enn þá á teikniborðinu." Garðar segir að hann hafi farið að hugleiða hvernig nýta mætti hin miklu mannvirki á staðnum betur en nú, „hér er ný og góð sundlaug, íþróttahús,  heimavist sem gerðar hafa verið gagngerar endurbætur á og þá stendur til að endurbyggja íþróttavöllinn okkar næsta sumar, m.a. að leggja tartan á brautir," segir hann.  Hugmynd Garðars gengur út á að setja upp það sem hann kallar „íþróttahótel" og markaðssetja það fyrir íþróttahópa af öllu tagi.  „Hér er allt til staðar, aðstaðan góð og hóparnir gætu verið hér nokkra daga í senn eða yfir helgi og nýtt þessa fínu aðstöðu til æfinga.  Margir fara í æfingaferðir, m.a. til útlanda, en þetta yrði mun ódýrari kostur.  Ég hef fulla trú á að þetta geti gengið upp," segir hann.  Garðar nefnir að margir vilji komast af og til burt úr skarkala þéttbýlisins með sína íþróttahópa og stunda æfingar í friði auk þess sem aðstaða er líka fyrir hendi til að flytja fyrirlestra í tengslum við ferðirnar.  Hann nefnir einnig að afþreyging að kvöldlagi sé líka til staðar og að stutt sé á skíðasvæðið í Hlíðarfjalli eða í Skautahöllina á Akureyri.

„Ég tel að þetta geti orðið raunverulegur valkostur við t.d. æfingaferðir til útlanda með íþróttahópa af ýmsu tagi, en vissulega eigum við eftir að vinna betur í þessu, fastmóta hugmyndir og vinna að markaðssetningu," segir hann og væntir þess að unnt verði að bjóða fyrstu hópunum að koma jafnvel strax í vor eða sumar, „en vonandi verðum við svo komnir á fullt með þetta verkefni næsta haust."

Nýjast