Íslensku jólasveinarnir eiga heima í Dimmuborgum

Allir íslensku jólasveinarnir þrettán búa í Dimmuborgum, samkvæmt áreiðanlegum heimildum úr Mývatnssveit. Þeir hafa birst þar daglega á milli kl. 13-15 undanfarna daga og munu að sögn halda því áfram fram að jólum. Um helgina hefur frést að þeir muni kíkja í heimsókn í hin ýmsu fyrirtæki sveitarinnar og heilsa upp á sveitunga sína og gesti. Mývatn og Mývatnssveit eru meðal fjölsóttustu ferðamannastaða á Íslandi á sumrin en töfrar staðarins eru ekki síður magnaðir að vetrarlagi. Það þarf því engan að undra að jólasveinarnir hafi valið sér Dimmuborgir sem heimili, enda eru þeir þar í góðum félagsskap steinrunninna íslenskra trölla og annarra vætta.

Jólasveinarnir í Dimmuborgum eru liður í svokölluðu snjótöfraverkefni (e. Snow Magic Mývatn) sem sett var á laggirnar árið 2004. Markmið þess er að efla ferðaþjónustu Í Mývatnssveit að vetrarlagi með áherslu á sögu og menningu sveitarinnar. Unnið er að verkefninu með stuðningi ýmissa fyrirtækja og opinberra aðila. Meðal annars hefur Skútustaðahreppur stutt við bakið á verkefninu, enda snýst það meðal annars um nýsköpun og vöruþróun á svæðinu. Samfélagssjóður Alcoa hefur nú lagt hönd á plóginn og mun styðja Snjótöfraverkefnið myndarlega næstu tvö árin. Kristján Þ. Halldórsson verkefnisstjóri samfélagsmála Alcoa á Norðurlandi, afhenti Guðrúnu Maríu Valgeirsdóttur, sveitarstjóra Skútustaðahrepps, styrkinn í vikunni.

Snjótöfraverkefnið er norrænt samstarfsverkefni þriggja aðila: Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Sorsele í Svíþjóð og Rovaniemi í Finnlandi. Markmið íslenska hlutans er að efla atvinnulíf í Mývatnssveit, sérstaklega yfir vetrartímann, með áherslu á ferðaþjónustu og menningu. Verkefni Snjótöfra í Mývatnssveit eru margvísleg. Unnið hefur verið að skráningu gamalla sagna hjá eldri Mývetningum. Vinnuhópur hefur hannað og skapað fjölbreytileg listaverk í snjó og ís. Mývetningar eru einnig þátttakendur í umfangsmikilli jólasýningu í Rovaniemi í Finnlandi þar sem íslensku jólasveinarnir eru í hávegum hafðir. Í tengslum við það verkefni hafa verið hönnuð og gefin út póstkort með íslensku jólasveinunum. Í tilefni þess að heimkynni jólasveinanna standa gestum opin í desember hafa velunnarar þeirra einnig hannað og saumað á þá nýja og skínandi fallega búninga.

Nýjast