Ísland að gefa

Áskorandapenninn

Axel Grettisson skrifar

 

Verkefni dagsins breytast eftir árstíðunum fyrir okkur miðaldra fólkið sem eigum samt ennþá unga krakka. Sumrin fara mikið í það að eltast við fótboltamót hér og þar um landið, þar sem við foreldrar erum orðin sjálfsagður hlutur af leiknum í dag sem er gott mál. Sjálfur æfði ég skíði þegar ég var ungur og man ég aðeins einu sinni eftir því að mamma mín kæmi til að sjá mig keppa, það var á Andrésarandarleikunum þegar ég var 12 ára. Ég hafði átt mjög góða fyrri ferð í stórsvigi og var að koma að endamarkinu í seinni ferðinni á sigurtímanum þegar mér tókst að krækja í þriðja síðasta portið fyrir framan alla áhorfendur. Þegar ég stóð upp var það eina sem ég heyrði voru köll frá mömmu um hvort að ég væri í lagi. Ég skammaðist mín alveg hræðilega fyrir þetta því þetta var ekki eins algengt á þessum tíma að foreldrar væru að fylgja sínum börnum eftir í keppni eins og gert er í dag. Auðvitað labbaði ég upp í portið aftur og kláraði ferðina og endaði síðastur en alveg heill nema andlega hliðin hún var pínu særð.

Hestaferðir, stuttar sem langar, notum við fjölskyldan til þess að eiga gæðastundir saman á sumrin. Það er fátt skemmtilegra en hestaferð í góðra vina hópi. Við tökum yngstu börnin oftast með okkur þegar það er hægt en stundum förum við foreldarnir barnlaus í slíkar ferðir. Þær ferðir eru til þess að rækta vináttu við þá sem með okkur fara og á meðan fá okkar börn stundum að fara í ævintýraferð til Reykjavíkur til frændfólks síns. Það er spennandi þegar þú býrð í sveit að fá að fara í slíkar ferðir, þar sem börnunum finnst oft að þau séu að missa af einhverju þar sem þau búa í sveit og fara t.d. aldrei í strætó, bara í skólarútu sem flestir bæjarkrakkar gera ekki. Það að læra að labba yfir miklar umferðagötur og yfir göngubrýr er upplifun þegar maður er uppalinn við malarveg sem fáir keyra um nema við sjálf og nágrannar okkar.

Náttúra landsins okkar er frábær og endalaust hægt að finna nýja staði til að ferðast um. Það er bara að velja sér rétta ferðamátann hverju sinni eftir því hvert skal halda. Það er ómetanlegt að ferðast um landið í góðu veðri með fjölskyldu og vinum. Við reynum að nýta sumrin til hins ýtrasta til þess að ferðast innanlands, hvort sem er akandi, gangandi eða ríðandi, sem mér persónulega finnst vera skemmtilegasti ferðamátinn þar sem maður kynnist landinu og landslaginu svo vel ríðandi um á góðum hesti.

Ég skora á vinkonu mína Fjólu Stefánsdóttur, oddvita Grýtubakkahrepps með meiru, að taka við pennanum.


Athugasemdir

Nýjast